Ævintýri í Norður-Atlantshafi

Efnahagur og lífskjör Íslendinga eru byggð á opnu aðgengi að erlendum mörkuðum, eðlilegum og sanngjörnum aðgangi erlendra aðila að íslenskum markaði. Öryggi og frelsi lands og þjóðar hefur allt frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari verið tryggt með samvinnu við aðrar vestrænar þjóðir og þá fyrst og fremst með varnarsamningi við Bandaríkin og þátttöku í Atlantshafsbandalaginu. Opin og gagnkvæm samskipti og samvinna við aðrar þjóðir á sviði lista og menningar hefur auðgað íslenskt mannlíf, skotið stoðum undir skapandi greinar og gefið íslenskum listamönnum tækifæri í öðrum löndum sem þeir hafa nýtt með glæsilegum árangri. Íslenskir háskólar og vísindastofnanir taka þátt í alþjóðlegu starfi, miðla af þekkingu sinni og njóta þekkingar annarra. Á hverju ári sækja þúsundir íslenskra námsmanna sér menntun til annarra landa. Flestir snúa þeir heim með nýja þekkingu og aðferðir. Íslenskt samfélag er litríkara, fjölbreyttara og dýnamískara vegna opinna samskipta við aðrar þjóðir. Skynsamleg nýting náttúruauðlinda, hugvit og frjáls viðskipti hafa lagt grunninn að einu mesta velferðarríki heims – Íslandi.

Íslensk stjórnvöld verða alltaf að vera vakandi við að gæta hagsmuna þjóðarinnar, opin fyrir nýjum tækifærum, átta sig á þeim hættum sem kunna að leynast og hafa þekkingu til að greina strauma í alþjóðlegum stjórnmálum. Með skipulegum hætti eiga stjórnvöld og stjórnmálamenn að fjölga valkostum þjóðar en ekki fækka þeim.

Ofurtrú á að lausn allra vandamála Íslendinga fælist í aðild að Evrópusambandinu gekk ekki aðeins af stjórnmálaflokki nær dauðum heldur leiddi til stöðnunar í íslenskri utanríkisstefnu. Ég hef haldið því fram að utanríkisstefnan hafi ratað á villigötur. Í stað þess að vinna markvisst að því að fjölga kostum Íslendinga í samskiptum við aðrar þjóðir var þeim fækkað. Hvernig mátti annað vera þegar ofurtrúin á „stóru-lausnina“ litaði allt starf utanríkisþjónustunnar í mörg ár, jafnvel eftir að ný stjórnvöld mörkuðu breytta stefnu.

Fríverslun í Norðurhöfum

Í október 2010 setti ég fram þá hugmynd, hér á síðum Morgunblaðsins, að Íslendingar hefðu frumkvæði að því að mynda nýtt fríverslunarsvæði á norðurslóðum, með þátttöku Noregs, Færeyja, Grænlands, Kanada og Bandaríkjanna auk Íslands. Nú þegar ljóst er að Bretland mun yfirgefa Evrópusambandið er rétt og skynsamlegt að Bretar taki þátt í samstarfi landanna.

Markmiðið er ekki aðeins að mynda fríverslun heldur ekki síður að búa til formlegan samstarfsvettvang vegna nýtingar auðlinda, náttúruverndar og sameiginlegra öryggishagsmuna. Samhliða fríverslun eiga löndin sjö að gera samning um nána samvinnu á sviði vísinda, rannsókna, lista, mennta og menningar. Víðtækt samstarf af þessu tagi virðir fullveldisrétt og sjálfstæði hverrar þjóðar, ólíkt Evrópusambandinu. Þar vinna umboðslausir embættismenn að því hörðum höndum að draga tennurnar úr þjóðþingum landa, takmarka sem mest sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Við Íslendingar höfum fengið smjörþefinn í gegnum EES-samstarfið enda sitja alþingismenn oft sveittir við að afgreiða frumvörp og þingsályktunartillögur á færibandi vegna tilskipana.

Góð reynsla

Íslendingar hafa góða reynslu af gerð fríverslunarsamninga með þátttöku sinni í EFTA þar sem EES-samningurinn er sá mikilvægasti, en nauðsynlegt er að gera úttekt á reynslunni af samningnum. Fríverslunarsamningur er við Færeyjar (Hoyvíkur-samningurinn) og árið 2014 tók gildi fríverslunarsamningur við Kína. Þá er einnig í gildi samningur um viðskipti milli Íslands og Grænlands þar sem kveðið er á um tiltekin tollfríðindi í viðskiptum. EFTA-ríkin hafa gert 25 fríverslunarsamninga sem ná til alls 36 landa.

Á komandi árum og áratugum mun það skipta Íslendinga miklu að auðlindir í Norðurhöfum verði nýttar af skynsemi og að náið samstarf verði á milli þjóða í umhverfismálum. Hagsmunirnir eru samþættir og sögulega hafa þjóðirnar sjö átt mikil samskipti, ekki síst á sviði viðskipta, mennta og menningar. Allar eiga þjóðirnar aðild að Atlantshafsbandalaginu, annaðhvort beint eða í gegnum ríkjasamband við Danmörk.

Í skýrslu utanríkisráðuneytisins – Ísland á norðurslóðum – sem kom út 2009 var bent á gríðarlega hagsmuni Íslands vegna nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum. Þeir hagsmunir eru samtvinnaðir náttúruvernd og öryggismálum í víðum skilningi. Tekið var fram að samvinna við grannríkin væri forgangsverkefni utanríkisþjónustunnar bæði í nánustu framtíð og til lengri tíma litið. Norðurskautsráðið gegnir þar mikilvægu hlutverki.

Ég er ekki að leggja til að mynduð verði ný samtök ríkja innan eða utan við Norðurskautsráðið. Ég vil hins vegar auka með skipulegum hætti samvinnu þeirra ríkja sem sögulega hafa átt í samstarfi á sviði öryggismála í áratugi, auk þess að hafa verið í umfangsmiklum viðskiptum og samskiptum á sviði vísinda og mennta.

Miklir hagsmunir

Fyrir Ísland er um gríðarlega hagsmuni að ræða. Með fríverslunarsamningi er tryggður aðgangur að yfir 430 milljóna manna markaðssvæði. Fyrir Ísland er mikilvægi fyrirhugaðra samstarfslanda óumdeilt.

Á liðnu ári fluttu Íslendingar út vörur til þessara landa fyrir nær 140 milljarða og árið 2015 þjónustu fyrir yfir 240 milljarða. Þjónustujöfnuður við löndin var hagstæður um 83 milljarða, þar af 58 milljarða við Bandaríkin. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fóru tæplega 1,8 milljónir farþega frá öðrum löndum en Íslandi um Keflavíkurflugvöll árið 2016. Tæplega helmingur þessara farþega var frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Noregi.

Brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu gerir fríverslun og samstarf ríkjanna í Norður-Atlantshafi fýsilegra en áður, ekki aðeins fyrir okkur Íslendinga heldur allar þjóðirnar. Hverfandi líkur eru á að Bretar gangi inn í EES-samstarfið og það gerir það mikilvægara en ella fyrir okkur Íslendinga að tryggja viðskiptasamninga. Það er því ánægjulegt að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skuli setja samskiptin við Bretland í forgang. Best væri að það yrði fyrsta skrefið í þá átt sem hér er lagt til.

Því skal haldið fram að með samstarfi ríkjanna sjö verði ekki aðeins til eitt mesta hagvaxtarsvæði heims, heldur einnig leiðandi sameiginlegt afl þjóða á sviði vísinda og náttúruverndar, að ógleymdu lífskryddinu sjálfu – listum og menningu.

Ísland getur haft forystu um að búa til ævintýri í Norður-Atlantshafi.

Share