Allt fyrir alla – ókeypis

Staða efnahagsmála á Íslandi er í flestu góð. Hagvöxtur er mikill, verðbólga lág, atvinnuleysi hefur ekki verið minna í mörg ár, kaupmáttur launa hefur ekki verið meiri, skuldir heimila og fyrirtækja lækka stöðugt. Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi síðustu ár og tekist hefur að greiða niður skuldir. Hægt hefur verið að auka verulega útgjöld, ekki síst til heilbrigðismála og almannatryggingakerfisins, um leið og skattar hafa verið lækkaðir.

Sem sagt: Það er ástæða til almennrar bjartsýni um framtíðina sé rétt á málum haldið. Í aðdraganda kosninga hefur aukin efnahagsleg velsæld og bjartsýni gefið stórum loforðum stjórnmálaflokka trúverðugleika. Loforð um að gera allt fyrir alla og það „ókeypis“ eru meira sannfærandi á tímum góðæris en þegar allt er í kalda kolum. Þess vegna eru kosningarnar 29. október næstkomandi kosningar hinna dýru loforða.

Stillt upp við vegg

„Hvaða ætlar þú að gera fyrir mig – fyrir okkur?“ gæti verið yfirskrift fjölmargra funda sem hagsmunasamtök af ýmsu tagi boða til með frambjóðendum stjórnmálaflokkanna. Í aðdraganda kosninga geta hagsmunasamtök varla látið tækifærið framhjá sér fara. Boðið er til eins konar uppboðsmarkaðar kosningaloforða. Frambjóðendum er stillt upp við vegg. Þeir sem lofa mestu fá lófaklapp og hvatningu. Detti einhverjum frambjóðenda í hug að spara loforðin mætir honum fáskiptinn og jafnvel kuldalegur fundarsalur.

Ekkert er óeðlilegt við að hagsmunasamtök vinni að framgangi þeirra mála sem varða félagsmenn þeirra mestu. Þetta á við um samtök fyrirtækja og launafólks, sem öll vinna hins vegar að sérhagsmunum. Oft er barist fyrir framgangi mikilvægra réttlætismála en stundum á kostnað einhverra annarra. Þeir sem kostnaðinn bera eru ekki boðaðir til fundar.

190 milljarða loforð

Það verður ekki annað sagt en að afköst stjórnmálaflokkanna við kosningaloforðin hafi verið mikil að undanförnu. Nú er búið að lofa yfir 190 milljörðum í aukin útgjöld ríkisins samkvæmt samantekt Viðskiptaráðs Íslands. Miðað við fjárlög þessa árs á að auka útgjöld ríkissjóðs um 27% – hvorki meira né minna. Þetta jafngildir tæpum 2,3 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Stærstu loforðin snúa að heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt fjárlögum þessa árs eru útgjöld ríkisins til heilbrigðismála liðlega 38,5 milljörðum króna hærri en fjárlög kosningaárið 2013. Um það verður vart deilt að á komandi árum þarf að auka útgjöld til heilbrigðismála, ekki síst vegna fjárfestingar í innviðum. En á uppboðsmarkaði kosningaloforða snýst allt um yfirboð um aukin útgjöld en gæði þjónustunnar verða eins og hvert annað aukaatriði. Fáir hætta sér út á þá hálu braut að ræða skipulag eða hvernig hægt sé að nýta fjármuni með skynsamlegum hætti. Slík umræða þykir ekki „kosningavæn“.

Langur listi

En það er ekki aðeins lofað að auka útgjöld til heilbrigðismála fyrir sömu fjárhæð og renna samanlagt til allra framhaldsskóla og háskóla landsins, samgöngumála og löggæslu. Búið er að lofa fyrirframgreiðslu vaxtabóta, byggingu þúsunda leiguíbúða, hækkun fæðingarorlofs og lengingu þess, tvöföldun barnabóta, hækkun húsnæðisbóta, enn frekari hækkun á greiðslum almannatrygginga, mun hærri útgjöldum til menntamála, umfangsmiklum fjárfestingum í vegamálum, auknum framlögum til lista og menningar, styttri vinnuviku og jafnvel léttlestum. Listinn er langur og mun lengjast fram að kjördegi.

Viðskiptaráð heldur því fram að fyrirheit um gríðarlega aukningu útgjalda endurspegli „vægast sagt ábyrgðarlausa stefnu í ríkisfjármálum“:

„Til að efla grundvöll opinberrar þjónustu til lengri tíma og stuðla að efnahagslegum stöðugleika væri mun æskilegra að nýta hagfelldar efnahagsaðstæður til frekari niðurgreiðslu skulda. Lægri skuldir leiða til lægri vaxtagreiðslna. Um þetta geta fáir deilt.“

Ádrepa Viðskiptaráðs, um að engum sé greiði gerður með innstæðulausum eða vanhugsuðum loforðum, er rétt:

„Stjórnmálamenn með slík loforð í farteskinu standa frammi fyrir tveimur afleitum kostum. Annars vegar geta þeir brugðist væntingum kjósenda og sleppt því að standa við gefin loforð. Hins vegar geta þeir staðið við þau með neikvæðum afleiðingum fyrir efnahagslegan stöðugleika og lífskjör.“

Síðari kosturinn er líklega ekki ofarlega í huga allra sem keppa um hylli kjósenda. Sumir sjá lítið athugavert við að velja báða kostina.

Allt fyrir alla – ókeypis

Garmurinn hann Ketill – skattgreiðandinn – á sér litlar varnir í aðdraganda kosninga. Helst að hann reyni að leita sér huggunar í hástemmdum yfirlýsingum loforðasmiðanna um að útgerðin skuli borga stærsta hluta kosningavíxlanna sem renna út af færibandi stjórnmálaflokkanna. Kannski gamla fólkið taki einnig þátt í kostnaðinum þegar búið er að leggja að nýju á eignarskatt sem vinstrimenn kölluðu því fallega nafni auðlegðarskatt. Þeir sem mestu lofa hafa hótað því að innleiða eignarskattinn aftur og halda margþrepa tekjuskatti – draga til baka lög um afnám milliþreps. Millistéttin mun, eins og alltaf, borga sinn hluta og gott betur.

Loforðið um að gera allt fyrir alla, ókeypis, er aldrei ókeypis. Þetta á garmurinn hann Ketill skattgreiðandi að vita af biturri reynslu, jafnvel þótt honum sé ekki boðið á fundi hagsmunasamtaka.

Share