Sáttmáli þjóðar

Yfirgnæfandi meirihluti okkar Íslendinga lítur svo á að í gildi sé sáttmáli – sáttmáli þjóðar sem ekki megi brjóta. Við höfum sammælst um að fjármagna sameiginlega öflugt heilbrigðiskerfi þar sem allir geta notið nauðsynlegrar þjónustu og aðstoðar án tillits til efnahags eða búsetu. Við viljum rétta hvert öðru hjálparhönd og aðstoða þá sem minna mega sín til sjálfshjálpar og stuðla að mannlegri reisn okkar allra. Almannatryggingakerfið líkt og heilbrigðiskerfið er hornsteinn þjóðarsáttmálans.

Jafnræði borgaranna er þriðji hornsteinninn. Óhætt er að fullyrða að fátt fari verr með þjóðarsálina en óréttlæti og mismunun. Þriðji hornsteinninn er hins vegar veikburða. Okkur Íslendingum hefur ekki tekist að gæta jafnræðis á öllum sviðum, hvorki að lögum, reglum né í framkvæmd.

Í áratugi hefur viðgengist óréttlæti í lífeyrismálum landsmanna – óþolandi mismunun þar sem þjóðinni hefur verið skipt í tvo hópa. Í öðrum hópum eru þeir sem njóta ríkistryggðra lífeyrisréttinda en í hinum eru þeir sem hafa verið gerðir ábyrgir fyrir ríkisábyrgðinni en þurfa um leið að sætta sig við skert réttindi ef illa gengur.

Verður ranglætið leiðrétt?

Í september bárust þær gleðifréttir að tekist hefði samkomulag um samræmt lífeyriskerfi þar sem allir landsmenn standa jafnfætis. Tryggja átti öllu launafólki sambærileg lífeyrisréttindi hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Loksins, loksins var verið að leiðrétta áratuga ranglæti.

Ekki liðu margir dagar frá því að samkomulagið var gert þangað til einstök stéttarfélög opinberra starfsmanna lýstu yfir andstöðu, þrátt fyrir að hafa undirritað tímamótasamkomulag. Hægt og bítandi hefur því molnað undan gerðum samningum. Þegar þetta er skrifað eru litlar sem engar líkur á því að mikilvægt réttlætismál nái fram að ganga. Við Íslendingar þurfum að líkindum að búa við mismunun í lífeyrismálum um ókomin ár, ef ekki tekst að ganga rösklega til verks þegar að loknum kosningum. Tækifærið var og er til staðar vegna árangurs ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og gifturíkra samninga um stöðuleikaframlög þrotabúa gömlu bankanna.

Til að tryggja réttindi opinberra starfsmanna ætlaði hið opinbera að leggja 120 milljarða króna í sérstaka lífeyrisaukasjóði. Þar átti ríkið að greiða rúmlega 91 milljarð króna sem hefði verið gjaldfært í reikningum ríkisins á yfirstandandi ári. Með sérstökum samningi tók ríkið að sér að greiða rúmlega 20 milljarða króna hlutdeild sveitarfélaga í skuldbindingum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Á komandi árum mun ríkissjóður hafa takmarkað bolmagn til að leggja fram slíka fjármuni. Glugginn er að lokast. Baráttan um jafnræði í lífeyrismálum heldur hins vegar áfram um leið og unnið er að heilbrigðari vinnumarkaði með auknum sveigjanleika þar sem launafólk á auðveldara með að flytja sig á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins, án þess að fórna réttindum.

Óréttlætið í lífeyrismálum er smánarblettur og á meðan það er ekki leiðrétt verður þriðji hornsteinn þjóðarsáttmálans – jafnræði borgaranna – áfram veikburða.

Hornsteinar styrktir

Á kjörtímabilinu hafa aðrir hornsteinar verið styrktir – gerðir traustari. Róttækar breytingar á almannatryggingakerfi eldri borgara verða að líkindum samþykktar áður en þingi verður slitið. Þar með eru eldri borgurum tryggðar mestu kjarabætur í áratugi, – kerfið verður einfaldara, gagnsærra og réttlátara. Næsta verkefni er kerfisbreyting á lífeyriskerfi öryrkja með starfsgetumati. Markmiðið er ekki aðeins að einfalda kerfið heldur fyrst og síðast að bæta hag öryrkja og gera þeim sem geta mögulegt að taka virkan þátt í atvinnulífinu. Ný lög eru fyrsta skrefið en viðhorfsbreyting hjá atvinnurekendum – ríki, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum – er forsenda þess að markmiðin náist.

Á síðustu þremur árum hefur tekist að byggja heilbrigðiskerfið upp að nýju eftir áföll og vitlausa forgangsröðun ríkisútgjalda. Á þessu ári verða sameiginleg framlög okkar um eða yfir 40 milljörðum hærri en fjárlög 2013 gerðu ráð fyrir.

Flestir viðurkenna að enn verður að auka útgjöld til heilbrigðismála. En um leið og það er gert verðum við einnig að horfast í augu við þá staðreynd að fjármunum er víða sóað, þeir eru illa nýttir. Eitt stærsta verkefni á sviði heilbrigðismála á komandi árum verður að tryggja góða nýtingu fjármuna – að skattgreiðendur fái það sem greitt er fyrir; öfluga og góða heilbrigðisþjónustu. Þar skiptir skipulag kerfisins mestu og um það er deilt.

Hornsteinar þjóðarsáttmálans eru margir og verða ekki allir nefndir hér. Við höfum sameiginlega heitið því að tryggja að börn og unglingar njóti góðrar menntunar. Okkur hefur ekki tekist að uppfylla þetta loforð með þeim hætti sem við teljum ásættanlegt. Tækni- og verknám hefur ekki síst setið á hakanum og háskólar eru í vörn í stað sóknar. Gott, öflugt og fjölbreytt menntakerfi er mikilvægur hornsteinn íslensks samfélags. Sá steinn er sterkari nú en í upphafi kjörtímabilsins.

Almenningur treystir því að kjörnir fulltrúar standi vörð um hornsteina samfélagsins, en gerir þá eðlilegu kröfu að ríki og sveitarfélög fari vel með sameiginlega fjármuni. En um leið láta sig flestir sig dreyma um að gengið sé fram af hófsemd við álagningu skatta og gjalda, hvort sem er á einstaklinga eða fyrirtæki.

Share