Almenningsvæðing bankakerfisins

Almenningsvæðing bankakerfisins

„Við viljum almenningsvæða banka. Rétt er að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað,“ segir í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins 24. september síðastliðinn.tafla

Hugmyndafræðin er skýr og vilji flokksráðsfundar er ákveðinn. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því að almenningur eignist beinan hlut í bönkunum. Loforðið er í samræmi við það sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur áður sagt, meðal annars á landsfundi á síðasta ári.

Nái stefna Sjálfstæðisflokksins fram að ganga yrði um að ræða einhverja umfangsmestu og áhrifaríkustu aðgerð til að styrkja eignastöðu íslenskra heimila. Allir landsmenn þátttakendur á hlutabréfamarkaði.

Sanngjarnt og raunhæft

Forsendurnar fyrir því að almenningsvæða bankana eru fyrir hendi:

  • Neyðarlögin sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde beitti sér fyrir árið 2008 lögðu grunninn að endurreisn fjármálakerfisins.
  • Komið var í veg fyrir að Icesave-skuldabaggi Landsbankans yrði lagður á skattgreiðendur.
  • Skynsamleg stjórn ríkisfjármála frá 2013 og einörð stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins gagnvart þrotabúum bankanna var árangursrík og tryggði hundruð milljarða í stöðugleikaframlög.
  • Mikil virðisaukning og góð afkoma bankanna.

Allt þetta – hvert með sínum hætti – hefur gert það mögulegt að afhenda almenningi „drjúgan hlut eignar sinnar“ í bönkunum. Og það sem meira er; það er sanngjarnt að almenningur fái að njóta með beinum hætti þeirrar verðmætaaukningar sem orðið hefur innan veggja bankanna.

Undir lok árs 2009 var bókfært eigið fé bankanna rétt tæpir 340 milljarðar króna. Um mitt þetta ár var eigið fé nálægt 655 milljörðum. Aukningin er 315 milljarðar króna og jafngildir tæplega 950 þúsund krónum á hvern Íslending.

Eðlilegar endurheimtur

Ríkissjóður á nær allt hlutafé í Landsbanka og eignaðist Íslandsbanka að fullu eftir samninga við þrotabú. Hlutur ríkissjóðs í Arion banka er 13%.

Fáir nema hörðustu sósíalistar telja það æskilegt að ríkið eigi og reki stærstan hluta fjármálakerfisins. Það er því ljóst að ríkið mun á næstu árum selja eignarhluti sína í Íslandsbanka og Landsbanka, þótt líklegt sé að það haldi eftir áhrifahlut í síðarnefnda bankanum til framtíðar. Undirbúningur er þegar hafinn að sölu Arion banka.

Í febrúar síðastliðnum lagði ég til að íslenskum heimilum yrðu afhent hlutabréf í bönkunum og miðaði við 12%. Frá þeim tíma hefur staðan gjörbreyst. Þar skiptir mestu hve vel ríkisstjórnin hefur haldið á málum. Stöðugleikaframlög þrotabúa bankanna eru langt umfram það sem mig óraði fyrir. Eðlilegt er að almenningur njóti þess með beinum hætti enda urðu einstaklingar fyrir miklum búsifjum við fall bankanna. Með því að afhenda eigendum sínum – almenningi – beinan eignarhlut í bönkunum er stuðlað að endurheimtum vegna áfalla fyrri ára.

20-25% hlutur

Það er raunhæft að stefna að því að samhliða skráningu bankanna á hlutabréfamarkað verði 20-25% eignarhlutur í Landsbanka og Íslandsbanka afhentur almenningi og 13% hlutur í Arion banka (öll hlutabréf í eigu ríkisins).

Allir íslenskir ríkisborgarar með skattalegt heimilisfesti hér á landi síðustu ár og börn þeirra eignast þannig hlutabréf. Miðað við eigið fé bankanna um mitt þetta ár fengi hver Íslendingur allt að 417 þúsund krónur í sinn hlut. Hver fjögurra manna fjölskyldu eignaðist 1,7 milljónir króna af eigin fé bankanna.

Markaðsvirði hlutabréfanna – raunvirði eignarhluta almennings – er að líkindum nokkru lægra en hlutdeildin í eigin fé. Aðeins skráning bankanna á hlutabréfamarkað og tíminn geta leitt í ljós hvert verðmætið er.

Skynsamlegt er að setja ákveðnar kvaðir á hlutabréfin þannig að einstaklingar verði að eiga þau í 3-5 ár en sé þó heimilt að selja þau ef keypt eru önnur skráð hlutabréf. Að öðrum kosti er söluverðmætið skattlagt. Rétt er að eldri borgarar geti selt sín bréf hvenær sem er án skattlagningar og skerðingar á ellilífeyri.

Fjárhagslegt sjálfstæði

Fjárhagsstaða einstaklinga og heimila batnaði verulega á liðnu ári samkvæmt niðurstöðum rannsókna Hagstofunnar á skattframtölum. Í frétt frá Hagstofunni er bent á að þetta eigi einkum við um einstæða foreldra en staða eiginfjár í þeim hópi jókst um 50% árið 2015. Eiginfjárstaða einstaklinga jókst um 17,1%, hjóna án barna um 12,7% og hjóna með börn um 27,5%. Eiginfjárstaða milli ára hækkar mest í aldurshópunum 25-39 ára, úr 55 milljörðum króna í 111 milljarða króna árið 2015.

Þetta er ekki slæmur vitnisburður um stöðu efnahagsmála og árangur hagstjórnar. Fjárhagsstaða íslenskra heimila hefur styrkst mjög á kjörtímabilinu. En það eru enn margir sem glíma við fjárhagslega erfiðleika. Þeir eins og allir aðrir munu njóta þess að endurheimta eign sína í bönkunum.

Það er grunnstef Sjálfstæðisflokksins að gera sem flesta að eignamönnum – stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði. Almenningsvæðing banka, líkt og flokksráðsfundur samþykkti, er í takt við þetta grunnstef. Um leið er aðhald að bönkum – mikilvægum stofnunum samfélagsins – aukið, tiltrú almennings á fjármálakerfið endurreist og styrkari stöðum er skotið undir hlutabréfamarkaðinn.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :