Áform um skattalækkanir í hættu

Skattar á laun

Ef horft er til þeirra verkefna sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á eftir að ljúka er ástæðulaust að boða til kosninga áður en kjörtímabilinu lýkur eftir eitt ár. Þótt mikið hafi áunnist á síðustu þremur árum, þar sem grunnur hefur verið lagður að bjartari framtíð og bættum lífskjörum, eru enn verk óunnin – ekki síst þau er lúta að tiltekt og lagfæringum eftir vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem taldi sig hafa umboð til að kollvarpa þjóðfélaginu.

Skattkerfið, sem var tiltölulega einfalt og gagnsætt, var eyðilagt í nafni norrænnar velferðar á árunum 2009 til 2013. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir, skattar á launafólk einnig og innleiddur margþrepa tekjuskattur sem verst fór með millistéttina. Lagt var til atlögu við eldra fólk með auðlegðarskatti – eignaupptökuskatti – þar sem einstaklingar urðu að sæta því að greiða jafnvel hærri skatta en nam tekjum. Sótt var að sjálfstæðum atvinnurekendum með sérstökum auðlegðarskatti og margir neyddust til að ganga verulega á eigið fé eða stofna til skulda til að standa undir skattgreiðslum.

Mikilvæg skref

Auðlegðarskatturinn rann sitt skeið árið 2014. Enginn þarf að fara í grafgötur með vilja vinstri manna til að endurvekja þann óréttláta skatt á eignir fólks, þegar og ef þeir komast til valda. Vinstri menn trúa því að ríkið hafi „afsalað sér tekjum“ með því að sitjandi ríkisstjórn ákvað að framlengja ekki lög um óréttláta skattheimtu.

Undir forystu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra hafa verið stigin mörg mikilvæg skref til að einfalda skattkerfið. Almenn vörugjöld hafa verið felld niður, tollar af fatnaði og skóm heyra sögunni til og áformað er að allir aðrir tollar en þeir sem leggjast á tiltekin matvæli verði lagðir af 1. janúar næstkomandi. Með þessum aðgerðum hefur kaupmáttur heimilanna aukist og þá ekki síst barnafjölskyldna. Efsta þrep virðisaukaskattsins var lækkað á síðasta ári úr 25,5% í 24% og hefur aldrei verið lægra. Neðra þrepið var hækkað samhliða því sem skattstofninn var breikkaður.

Tryggingagjald hefur lækkað á kjörtímabilinu og samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra, sem liggur fyrir Alþingi, er ætlunin að það lækki enn frekar 1. júlí næstkomandi. Þá verður gjaldið komið niður í 6,85% en hæst fór það í 8,65% í tíð vinstri stjórnarinnar. Tryggingagjaldið, sem er ekki annað en skattur á laun og störf (og því talið með í töflunni sem fylgir með), er þó enn mun hærra en það var árið 2008; 5,34%.

Afnám milliþreps og tolla

Fyrstu skrefin í átt að skynsamlegum tekjuskatti einstaklinga hafa verið tekin. Skatthlutfall í neðsta þrepi hefur verið lækkað sem og í öðru þrepi en ríkisstjórnarflokkarnir stefna að því að fella það niður í byrjun komandi árs. Afnám milliþrepsins skiptir alla launamenn miklu og þá ekki síst millistéttina. Þar með verður tekjuskattskerfið einfaldara með tveimur þrepum. Aðeins vantar herslumuninn að gengið sé alla leið og innleitt eitt skattþrep – flatur tekjuskattur sem þó verður margþrepa vegna skattleysismarka.

Verði gengið til haustkosninga og í framhaldinu mynduð ný ríkisstjórn vinstri flokka, verða áform um einföldun skattkerfisins sett ofan í skúffur og þeim læst. Í staðinn munu dregnar upp hugmyndir um hækkun skatthlutfalla og fjölgun skattþrepa, í anda hinnar norrænu ríkisstjórnar og „you ain‘t seen nothing yet skattastefnunnar“. Enginn skal halda að áætlun um afnám tolla gangi eftir undir stjórn vinstri manna. Allar hugmyndir um lækkun skatta verða afturkallaðar, gamlir skattar verða endurvaktir og aðrir hækkaðir.

„Afsala sér tekjum“

Í hugum þingmanna stjórnarandstöðunnar er ríkissjóður að „kasta frá sér tekjum“ með lækkun skatta og afnámi gjalda og tolla. Ríkissjóður er að „afsala sér tekjum“ er rauði þráðurinn í málflutningi vinstri manna. Röksemdin á kannski ekki að koma á óvart. Þeir líta á sjálfsaflafé einstaklinga sem eign ríkisins. Ríkið á allt það sem einstaklingurinn aflar og ríkið „afsalar sér“ því sem hann heldur eftir þegar búið er að greiða skatta.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar og Árni Páll Árnason eru meðal þeirra þingmanna sem líta svo á að ríkissjóður sé að „afsala sér tekjum“ með lækkun skatta og opinberra gjalda. Í september síðastliðnum hélt Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, því fram í þingræðu „að þessi ríkisstjórn hefur markvisst afsalað sér tekjum“.

Allir þessir þingmenn gera sér vonir um að mynda bræðing með Pírötum eftir kosningar. Skattastefnan verður mótuð af hugmyndum þeirra um eignarétt einstaklinga. Ekki munu Píratar standa gegn því. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir það ekki vera stefnu Pírata að hækka skatta á þá launahærri í samfélaginu en það sé heldur ekki stefna flokksins að gera það ekki!

Sífellt léttvægari rök

Rökin fyrir kosningum í haust verða sífellt léttvægari enda augljóst að stjórnarandstaðan hefur lítinn annan vilja en að koma í veg fyrir framgang mála sem njóta stuðnings meirihluta Alþingis. Þá er einnig lítil skynsemi í því fyrir ríkisstjórnina að tryggja ekki að áform um skattkerfisbreytingar, lækkun skatta og afnám tolla nái fram að ganga. Það gengur þvert á hagsmuni launafólks.

Árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og öguð fjármálastjórn skapar tækifæri og svigrúm til að lækka álögur á almenning enn frekar en þegar hefur verið gert og ákveðið. Erfðafjárskattur er t.d. tvöfalt hærri en hann var árið 2008, hið sama á við um fjármagnstekjuskatt. Tekjuskattur fyrirtækja er þriðjungi hærri en áður en vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum.

Verkefnalisti ríkisstjórnarinnar, sem kynntur hefur verið fyrir stjórnarandstöðunni, er langur en ætti að vera lengri. Hálfnað verk þá hafið er, segir gamalt máltæki. Það á við um tiltektina og lagfæringarnar á skattkerfinu. Verkið er hafið en því er ekki lokið. Ríkisstjórnin hlýtur að tryggja að afnám milliþreps í tekjuskatti og afnám tolla, nái fram að ganga áður en boðað er til kosninga. Um leið er hægt að leggja grunninn að frekari einföldun skattkerfisins og lækkun opinberra gjalda.

Share