Auðvitað skal skjóta sendiboðann


Sendiboði illra tíðinda má alltaf búast við því að reynt verði að skjóta hann á færi. Þessu hefur Eyþór Arnalds, formaður nefndar menntamálaráðherra um starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins, fengið að kynnast síðustu daga. Þó áttu tíðindin sem nefnd Eyþórs flutti í RÚV-skýrslu sinni, ekki að koma neinum á óvart. Þau eru í takt við það sem útvarpsstjóri hefur áður haldið fram. En auðvitað eiga margir erfitt að sætta sig að kaldar staðreyndir séu dregnar fram með skipulegum og skýrum hætti.

Nokkrum klukkutímum eftir að skýrslan var kynnt taldi Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sér ekkert að vanbúnaði að kveða upp dóm. Sá dómur var ekki efnislegur. Í pólitískum hernaði vilja sumir þeirra sem boða ný vinnubrögð og meira samtal, fremur fara í manninn en boltann – skjóta sendiboðann ef færi gefst.

Í viðtali við Stöð 2 sagði Róbert Marshall:

„Mér finnst þetta vera innanbúðarmaður úr Sjálfstæðisflokknum sem tekur saman upplýsingar sem að við vissum að mörgu leyti um rekstur Ríkisútvarpsins. Skipunarbréfið fól í sér að menn ættu að fara yfir skuldastöðuna en síðan breyttist það og þetta er orðið að skýrslu um skoðanir Eyþórs Arnalds á Ríkisútvarpinu að stórum hluta.“

Daginn eftir endurtók Róbert árásir sínar á Eyþór í viðtali á Rás 2. Egill Helgason tók undir með þingmanninum í pistli á Eyjunni sama dag og sagði:

„Tilgangur skýrslu um Ríkisútvarpið virðist aðallega hafa verið að efna til óvinafagnaðar um það. Má spyrja, hefði verið eitthvað að því að fá til verksins skýrsluhöfunda sem hafa eitthvað vit á fjölmiðlum?“

„Froðufellandi rakkar“

Skýrslan um Ríkisútvarpið gaf síðan Guðmundi Andra Thorssyni efnivið í blaðagrein í Fréttablaðinu síðastliðinn mánudag, þar sem hann líkir þeim einstaklingum sem unnu skýrsluna, við „froðufellandi rakka“.

Rithöfundurinn skrifar um hina „ofsóttu“ stofnun sem ríkisstjórnarflokkarnir séu með á heilanum. Kvartanir yfir slagsíðu Ríkisútvarpsins virki „eins og úthugsuð óttastjórnun – markviss aðferð við að skjóta fólki skelk í bringu, stjórna umfjöllun um sig og halda stofnuninni í heljargreipum“. Allt er þetta auðvitað Davíð sjálfum að kenna:

„Kannski er þessi eilífa áreitni stjórnmálamanna í garð RÚV einn arfurinn enn frá óttastjórnunarstíl Davíðsáranna sem við þurfum að losa okkur við til að skapa heilbrigðara andrúmsloft í samfélaginu.“

En hvað unnu Eyþór Arnalds og samverkafólk hans sér til saka? Hvað er það í skýrslunni sem vekur upp svo mikla reiði þeirra sem taka alltaf varðstöðu með hinum ríkisrekna fjölmiðli? Hvað veldur þessari taugaveiklun og geðshræringu sem brýst út í persónulegum svívirðingum og ákúrum í garð nafngreindra einstaklinga

Ábendingar og staðreyndir

Í skýrslunni eru meðal annars dregnar fram þessar staðreyndir:

  • Frá því að opinbert hlutafélag var stofnað um Ríkisútvarpið hefur rekstur þess ekki verið sjálfbær. Gjöld hafa verið meiri en tekjur og taprekstur verið á fjórum árum af þeim átta sem félagið hefur starfað – alls 813 milljónir króna.
  • Innheimt útvarpsgjald hefur ekki runnið óskipt til Ríkisútvarpsins.
  • Mikil fjárbinding er í stóru og óhentugu húsnæði.
  • Frá stofnun hefur skuldsetning Ríkisútvarpsins verið mikil.

Höfundar skýrslunnar benda á eftirfarandi:

  • Mikilvægt er að gerður verði nýr þjónustusamningur í samræmi við lög nr. 23/2013 og í honum verði skilgreind sú þjónusta sem Ríkisútvarpið ber að sinna og hvaða fjármunir eigi að koma fyrir þá þjónustu út samningstímann. Með nýjum þjónustusamningi fæst tækifæri til þess að ramma betur inn hlutverk, skyldur og forgangsröðun Ríkisútvarpsins.

Fyrirfram hefði mátt búast við að allir „vinir“ Ríkisútvarpsins gætu tekið undir með skýrsluhöfundum, ekki síst um útvarpsgjaldið, skuldsetningu og nauðsyn þess að gera nýjan þjónustusamning.

Þeir sem segjast bera hag ríkisfjölmiðilsins fyrir brjósti geta ekki tekið illa ábendingum um að miklar breytingar hafi orðið í neytendahegðun, sem koma fram í miklum samdrætti í áhorfi á hefðbundna sjónvarpsdagskrá, sérstaklega hjá ungu fólki. Vegna þessa telja höfundar skýrslunnar mikilvægt að endurskoða þjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins. Getur verið að andstaða sé við slíka endurskoðun?

Illskan og eðlilegar spurningar

Illskan í garð skýrsluhöfunda getur varla verið vegna eftirfarandi spurninga sem velt er upp:

  • Er ohf. rekstrarformið heppilegt fyrir starfsemi Ríkisútvarpið?
  • Á Ríkisútvarpið að vera á auglýsingamarkaði?

En líklegt er að eftirafandi spurningar, sem eru áleitnar, valdi mestu um geðshræringuna:

  • Er Ríkisútvarpið best til þess fallið að ná fram markmiðum ríkisins sem snúa að íslenskri menningu, tungu og lýðræðisumræðu?
  • Er hægt að fá betri nýtingu á fjárveitingar ríkissjóðs?

Þessar spurningar eru eðlilegar þegar haft er í huga að innan við 60% af heildargjöldum Ríkisútvarpsins fer í innlenda dagskrá. Miðað við síðasta rekstrarár (1. september 2014 til 31. ágúst 2015) runnu því a.m.k. 2,3 milljarðar króna í annað.

Ég hef lengi verið sannfærður um að ríkið eigi ekki að standa í rekstri fjölmiðla. En seint verður sátt um að leggja niður og/eða selja Ríkisútvarpið. Í þessu eiga margir sjálfstæðismenn samleið með þeim félögum Guðmundi Andra Thorssyni og Agli Helgasyni. Sú samleið er farin vegna einlægrar sannfæringar um að með rekstri ríkisins á fjölmiðli sé best staðið við bakið á íslenskri menningu, listum, sögu og tungu – öllu því sem gerir okkur að sjálfstæðri þjóð.

Skotgrafir og heillandi hugsun

Allir Íslendingar, a.m.k. þeir sem eru stoltir af uppruna sínum, sögu og menningu, vilja standa myndarlega að verki þannig að listir og menning fái að blómstra – kvikmyndir, tónlist, myndlist, leiklist, að ógleymdri ritlistinni. Og þótt ágreiningurinn kunni að vera um leiðir ættu flestir að geta sammælst um mikilvægi þess að takmörkuðum fjármunum sé varið af skynsemi.

Skýrslan um Ríkisútvarpið er ekki áfellisdómur yfir stjórnendum eða starfsmönnum. Hún er fyrst og síðast áfellisdómur yfir regluverkinu og þeim ramma sem löggjafinn – Alþingi – hefur sett um starfsemi ríkisins á fjölmiðlamarkaði.

Í stað þess að fara strax í að grafa skotgrafir, vega mann og annan (sem ekki hafa annað til saka unnið en draga fram staðreyndir og velta upp spurningum samkvæmt beiðni ráðherra), væri árangursríkara að við einbeittum okkur að því að finna leiðir til að tryggja lifandi fjölmiðlun og gróskumikið menningar- og listalíf. Svarið kann að finnast í því að aðlaga ríkisrekstur fjölmiðils að breyttum aðstæðum þar sem „nýtt Ríkisútvarp“ sinnir ekki dagskrárgerð fyrir utan fréttastofu útvarpsins, heldur kaupir allt efni af sjálfstæðum framleiðendum.

Sú hugsun er heillandi að á hverju ári geti íslenskir kvikmynda- og dagskrárgerðarmenn um allt land, átt möguleika á því að sjá góðar hugmyndir rætast, hvort heldur þeir eru búsettir í Reykjavík, í Vestmannaeyjum, á Hofsósi eða Egilsstöðum.

Því miður er erfitt að ræða hugmyndir af þessu tagi þegar menn vilja fremur skjóta sendiboðann.

Share