Bitlaus „niðurskurðarhnífur“ hægri manna


Mikið er þessi ríkisstjórn hryllileg. Enginn er óhultur fyrir hnífnum og flest skal skorið niður. Allt í anda skelfilegrar hægristefnu sem samkvæmt skilgreiningu er á móti listum og menningu, leggur áherslu á að einkavæða heilbrigðisþjónustuna og byggir á hugmyndafræði sem er skeytingarlaus um hag eldri borgara og öryrkja.

Þeir sem hlusta aðeins á málflutning stjórnarandstöðunnar og fréttir fjölmiðla, þar sem Ríkisútvarpið siglir í fararbroddi þöndum seglum, geta varla sannfærst um annað en að ríkisstjórnin sé stórhættuleg. Ætlunin sé að ganga milli bols og höfuðs á heilbrigðis- og almannatryggingakerfinu og um leið eyðileggja flest það sem gefur lífinu gildi með því að kippa stoðunum undan listum og menningu. Í fjárlaganefnd eru Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson óalandi og óferjandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hafa lítinn skilning á lífi venjulegs Íslendings en eru sagðir hafa mestan áhuga á að lækka skatta á þá sem mest hafa á milli handanna.

Og hvað hafa þessir vondu hægri menn og fylgifiskar þeirra til sakar unnið?

30% hækkun til Landspítala

Fjárlög 2013 eru síðustu fjárlög sem vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gekk frá og því er forvitnilegt að bera þau saman við þau áform sem birtast í fjárlagafrumvarpi komandi árs. (Vert er að hafa í huga að það er gömul saga og ný að fyrirhuguð útgjöld hækka frá frumvarpi til samþykktra fjárlaga).

Framlag ríkissjóðs til Landspítalans á næsta ári verður samkvæmt frumvarpi liðlega 30% hærra en fjárlög 2013. Þannig rennur nær 11,6 milljörðum króna hærri fjárhæð til spítalans en vinstri stjórnin stefndi að. Þá er ekki tekið tillit til 1,8 milljarða á komandi ári vegna byggingar sjúkrahótels. Framlag til Sjúkrahússins á Akureyri hækkar um 33% eða liðlega 1,5 milljarða. Gengið er út frá því að útgjöld til heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu hækki verulega og að öldrunarstofnanir fái á næsta ári liðlega 26% meira í sinn hlut en í síðustu fjárlögum vinstri stjórnarinnar. Þannig má lengi telja.

Í heilbrigðismálum hefur stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins því vissulega verið nokkuð önnur en sú sem fylgt var í tíð Samfylkingar og Vinstri grænna. Vinstri stjórnin skar niður heilbrigðisútgjöld frá 2009 til 2012 um 28,5 milljarða króna á föstu verðlagi. Framlag til Landspítalans lækkaði sem og til Sjúkrahússins á Akureyri. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga vegna þjónustu sérfræðilækna jókst verulega. Forgangsröðunin brenglaðist hressilega en afsökunin var skýr; hér varð hrun. Þó voru til peningar í ýmis önnur verkefni – sum hver varla annað en gæluverkefni.

Lífeyristryggingar verða 21,6 milljörðum króna hærri á næsta ári en í fjárlögum 2013; hækkun um 35%. Örorkulífeyrir hækkar um rúmlega 28%, aldurstengd örorkuuppbót um 30% og tekjutrygging um nær 16%. Ellilífeyrir verður 52% hærri á komandi ári en í síðustu fjárlögum vinstri stjórnarinnar, tekjutrygging og heimilisuppbót 37% hærri.

Þetta eru nokkur dæmi um hvernig „niðurskurðarhnífnum“ hefur verið beitt miskunnarlaust í tíð sitjandi ríkisstjórnar.

Dæmi eru fleiri.

Atlagan að menningunni

Ef marka má fréttir (ekki síst hinar ríkisreknu) og stóryrtar yfirlýsingar stjórnarandstæðinga mætti ætla að niðurskurðurinn hjá Ríkisútvarpinu væri blóðugri en dæmi er um í sögunni. Það sé verið að knésetja  flaggskip íslenskrar menningar, mikilvægustu öryggisstofnun landsins og lífsnauðsynlegan fjölmiðil svo unnt sé að veita stjórnvöldum aðhald.

Blóð Ríkisútvarpsins er undarlegt á litinn. Að óbreyttu fjárlagafrumvarpi verða framlög til ríkismiðilsins 295 milljónum króna hærri en í fjárlögum vinstri stjórnarinnar 2013. Samkvæmt skilgreiningu bera vinstri menn hag Ríkisútvarpsins mjög fyrir brjósti og því er að eftirtektarvert að undir forystu sjálfstæðismanna skuli framlögin aukin að raunvirði um 1-2%. Menntamálaráðherra vill auka framlögin enn meira.

Hitt er rétt að framlög til Ríkisútvarpsins hafa ekki aukist með sama hætti og til lista og menningar. Þjóðleikhúsið fær á næsta ári liðlega 31% meira í sinn hlut frá ríkinu en á fjárlögum 2013. Kvikmyndamiðstöð Ísland nýtur 43% hærra ríkisframlags og Sinfóníuhljómsveitin nær 22%. Forráðamenn Hörpu eiga erfitt að kvarta yfir rúmlega 25% hækkun frá síðustu fjárlögum vinstri stjórnarinnar og framlag í Launasjóð listamanna hækkar töluvert að raunvirði.

Skattgreiðandinn er vinafár

Þannig bítur „niðurskurðarhnífur“ hinnar stórhættulegu ríkisstjórnar lítið. Hnífurinn er bitlaus og líkt og margir aðrar stofnanir njóta mörg söfn þessa. Kvikmyndasafn Íslands, Listasafn Einars Jónssonar, Gljúfrasteinn og Listasafn Íslands verða mun betur sett á komandi ári en undir „verndarvæng” vinstri stjórnar.

Liðlega 29% hækkun á framlögum til Listaháskóla Íslands rímar illa við þá möntru sem kveðin er um vonda ríkisstjórn sem skilji ekki mikilvægi lista og menningar.

Ríkisstjórnin í heild sinni er skömmuð látlaust og einstaka ráðherrar eru harðlega gagnrýndir og fá það óþvegið. Ekki fyrir niðurskurð heldur fyrir að auka ekki framlög nægilega mikið til hinna ýmsu málaflokka. Þingmenn sem gera tilraun til að stíga á bremsurnar vinna sér til óhelgi og þurfa að sitja undir svívirðingum og dylgjum. Þannig er reynt að draga úr andstöðunni á þingi svo háværar kröfur um aukin útgjöld nái fram að ganga.

Utan þings gagnrýna fáir ríkisstjórnina fyrir að ganga of hratt um gleðinnar dyr eða benda á að útgjöld ríkisins séu of mikil, vaxi of hratt og að forgangsröðun sé stundum brengluð. Enn færri taka upp hanskann fyrir skattgreiðandann sem þarf að standa undir þessu öllu saman. Hann virðist enn vera einmanna, hrakinn og barinn.

Share