Tillögur án sannfæringar

Tillögur án sannfæringar

Í byrjun febrúar síðastliðins lagði þingflokkur Samfylkingarinnar, ásamt þremur þingmönnum Viðreisnar, Flokks fólksins og Pírata, fram tillögu til þingsályktunar um „mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu og hækkana á húsnæðiskostnaði“. Nú rúmlega átta mánuðum síðar stendur þingflokkur Samfylkingar einn að tillögu um „samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana“.

Lítil sem engin umræða varð í þingsal þegar mælt var fyrir fyrri tillögunni í mars síðastliðnum. Aðeins framsögumaður og einn meðflutningsmaður sáu ástæðu til að taka til máls. Umræða um seinni tillöguna tók heldur ekki langan tíma. Aftur voru það aðeins tveir flutningsmenn sem tóku til máls, þeir hinir sömu og sáu ástæðu til að stíga í ræðustól Alþingis í mars. Tveir þingmenn Flokks fólksins blönduðu sér í umræðurnar auk þess sem sá er hér skrifar átti orðastað við framsögumann málsins – Kristrúnu Frostadóttur, sem að öllu óbreyttu verður formaður Samfylkingarinnar eftir nokkrar vikur.

Það vakti athygli mína að aðrir úr þingflokki Samfylkinga sáu ekki ástæðu til að ræða „samstöðuaðgerðirnar“ sem eru þó eitt af forgangsmálum flokksins á þessum þingvetri. Kannski vegna innri togstreitu í þingflokknum en ef til vill vegna þess að aðgerðirnar sem lagðar eru til eru þunnur þrettándi og allt traust lagt á ríkisstjórnina að útfæra þær, hljóti þær á annað borð brautargengi á þingi. Svo kann einnig að vera að Samfylkingar átti sig á því að ríkisstjórnin hefur þegar gripið til mótvægisaðgerða til að verja viðkvæma hópa s.s. með hækkun almannatrygginga, húsnæðisbóta og greiðslu sérstaks barnabótaauka og hefur boðað frekari aðgerðir meðal annars með endurskoðun á barnabótakerfinu. Í öllu falli verður ekki sagt að allur þingflokkur Samfylkingarinnar brenni mjög fyrir „samstöðuaðgerðunum“ ekki frekar en í febrúar fyrir „mótvægisaðgerðum“.

Fátt kemur á óvart

Fátt í tillögum Samfylkinga um „samstöðuaðgerðir“ kemur á óvart. Horft er til bóta- og millifærslukerfis og velt upp hugmyndum um tekjutengdar niðurgreiðslur á vöxtum. Ólíkt hafast menn að. Ríkisstjórnin tryggði í vor að launafólk gæti nýtt 3,5% tilgreindrar séreignar til fyrstu kaupa. Kemur það til viðbótar hefðbundnum séreignasparnaði. Og auðvitað er gripið til gamalla úrræða vinstrimanna. Skattar skulu hækkaðir, að þessu sinni undir hatti hvalreka. Eitt kunna vinstrimenn betur en þeir sem halla sér til hægri. Þeir eru snjallari í orðasmíði, eru hugmyndaríkari við að hanna umbúðir; hvalrekaskattur og samstöðuaðgerðir hljóma ekki illa.

Ekki verður góður ásetningur Samfylkingarinnar dreginn í efa þegar kemur að því að standa við bakið á launafólki sem er á leigumarkaði. Úrræðið sem boðað er lætur örugglega vel í eyrum margra en mun til lengri tíma grafa undan þeim sem eru á leigumarkaði. Samfylkingar virðast að vísu hafa lagt á hilluna hugmyndir um leiguþak (sem er jákvætt) en boða leigubremsu, þótt óljóst sé hvenær eigi að stíga á hana.

Miðað við upplýsingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar [HMS] hefur vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu þróast með hagstæðari hætti en íbúðaverð. Tólf mánaða hækkun leiguverðs fram til ágúst sl. var 5,9% á sama tíma og íbúðaverð hækkaði um 23%. Í mánaðarskýrslu HMS í júní kemur fram að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu í apríl sem hlutfall af launum sé það lægsta sem mælst hefur en gögnin ná aftur til byrjunar árs 2013. Bent er á að hlutfallið hafi náð hámarki í lok árs 2018 en mælist nú 15,6% lægra en það gerði þá. „Það ætti því að jafnaði að vera auðveldara fyrir fólk á leigumarkaði að ná endum saman nú en það var á árunum 2017-2020,“ segir orðrétt í skýrslunni.

Miðað við þessar upplýsingar eru lítil rök fyrir því að ríkisvaldið grípi inn í verðmyndun á leigumarkaði. Hugmyndir um leiguþak eða -bremsu byggjast á misskilningi um að embættismenn hafi burði og þekkingu til að grípa inn í verðmyndun á markaði og að niðurstaðan verði farsæl fyrir alla. Hið þveröfuga gerist, eins og ég hef oft fjallað áður um:

Eigendur leiguhúsnæðis hætta að leigja út, þar sem það svarar ekki kostnaði. – Framboð dregst saman.

Fjárfestar verða afhuga því að leggja fé í byggingu leiguíbúða. – Framboð verður minna.

Viðhald íbúða í útleigu situr á hakanum. – Gæðum húsnæðis hrakar.

Hálaunafólk á leigumarkaði nýtur þess að verðþak sé í gildi á sama tíma og láglaunafólk á í erfiðleikum með að finna hentugar íbúðir. – „Ávinningurinn“ lendir fremur hjá þeim sem betur eru settir en hjá þeim sem verr standa.

Hreyfanleiki á húsnæðismarkaði minnkar. – Hvatinn til að eignast eigið húsnæði minnkar, ekki síst hjá þeim sem hæstu tekjurnar hafa.

Samúð og skilningur

Að nokkru má hafa samúð með þingmönnum Samfylkingarinnar og sýna þeim skilning. Þeir leita leiða út úr þeim ógöngum sem meirihluti borgarstjórnar hefur verið fastur í síðustu ár í húsnæðismálum. Stefna borgarinnar undir forystu Samfylkingarinnar í skipulagsmálum hefur búið til lóðaskort sem aftur hefur kallað fram gríðarlega hækkun á kaupverði íbúða og hækkun á húsaleigu. Sá tími er löngu liðinn að stjórnendur borgarinnar líti á það sem skyldu sína að tryggja nægjanlegt framboð á lóðum á sanngjörnu verði.

Reykjavíkurborg hefur í raun sagt sig frá húsnæðismálum – er hætt að taka ábyrgð á þróun þeirra. Allur vandi sem glímt er við í húsnæðismálum er sagður ríkisvaldinu að kenna. Þegar bent er á ábyrgð meirihluta borgarstjórnar rísa Samfylkingar upp og andmæla hástöfum. Og draga svo fram gamalkunnar hugmyndir vinstrimanna, en án mikillar sannfæringar, um að ríkisvaldið leysi allan vanda eða a.m.k. mildi áhrifin af skipstrandi borgarstjórnar.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :