Óttinn við „rangar“ skoðanir

Óttinn við „rangar“ skoðanir

Frjáls samfélög tryggja með lögum og stjórnarskrá rétt hvers og eins borgara til að láta skoðanir sínar í ljós og rökræða við þá sem eru ósammála án þess að eiga á hættu að vera refsað. Þjóðfélög þar sem fólki er refsað fyrir „rangar“ skoðanir eru ófrjáls undir hæl einræðis eða alræðis. En jafnvel í frjálsum samfélögum getur myndast jarðvegur óþols fyrir ólíkum skoðunum. Til verður menning þar sem refsing fyrir „ranga“ skoðun er útskúfun og atvinnumissir. Grafið er undan málfrelsi, rökræðum og andófi. Borgarinn verður undir ósýnilegu valdi – oki – og hann veigrar sér við að taka til máls og segja hug sinn.

„Félagslegur þrýstingur á að hafa „rétta“ skoðun er útbreiddur í Bandaríkjunum samtímans,“ segir í nýlegri skýrslu Populace, hugveitu á sviði félagsrannsókna. [Hægt er að lesa skýrsluna hér: https://populace.org. .] Bent er á að á undanförnum árum hafi skoðanakannanir ítrekað sýnt að flestir Bandaríkjamenn, í öllum lýðfræðihópum, telja að þeir geti ekki deilt raunverulegum skoðunum sínum opinberlega af ótta við að móðga aðra eða verða fyrir refsingu og útskúfun. Menning ritskoðunar hefur náð að festa rætur í bandarísku samfélagi – innan veggja fyrirtækja, stjórnsýslu og fjölmiðla. Margir háskólar sem áður voru varnarvirki frjálsra skoðanaskipta eru orðnir vígvellir þar sem „rangar“ skoðanir eru kæfðar af mikilli hörku. Af ótta við slaufun beita einstaklingar sjálfsþöggun og greina opinberlega ranglega frá einlægri sannfæringu.

Á skjön við sannfæringu

Slaufunarmenningin (cancel culture) hefur með einum eða öðrum hætti haldið innreið sína í velflest ríki Vesturlanda enda af sama meiði sprottin og pólitískur rétttrúnaður. Félagslega „ásættanlegar“ skoðanir þvinga frjálsa borgara, vísindamenn, stjórnmálamenn og fjölmiðlunga til að tjá skoðanir sem eru á skjön við raunverulega sannfæringu. Þessi félagslegi þrýstingur neyðir einstaklinga til að breyta eigin skoðun, þegja eða aðhyllast opinberlega viðhorf sem þeir hafa aldrei tekið undir. Skoðanakúgunin verður ekki ósvipuð og í alræðisríkjum. Þróunin er áhyggjuefni vegna þess að hún ógnar einstaklingsfrelsi, fjölbreytni samfélagsins og lýðræðislegri sjálfstjórn borgaranna.

Í skýrslu Populace eru fjölmörg dæmi um hvernig almenningur felur eigin viðhorf. Meirihluti fólks segir opinberlega að grímunotkun sé árangursrík leið til að hefta útbreiðslu Covid-19 þegar þeir trúa því ekki í einrúmi. Opinberlega segja 48% Bandaríkjamanna á aldrinum 30 til 44 ára að foreldrar eigi að hafa meiri áhrif á námskrár grunnskóla en í reynd eru 74% þessarar skoðunar. Opinberlega segja 60% í þessum aldurshópi það óviðeigandi að ræða kynvitund í skólum við börn en í öryggi einkalífsins eru aðeins 40% sem aðhyllast þessi viðhorf.

Opinberlega vilja um 44 prósent demókrata að forstjórar fyrirtækja taki afstöðu til umdeildra mála, en aðeins 11 prósent vilja það raunverulega. Um 64 prósent repúblikana voru opinberlega hlynnt því að Hæstiréttur hnekkti dómi frá 1973 – Roe gegn Wade – um rétt kvenna til þungunarrofs. En innra með sér var aðeins 51 prósent sammála nýlegum dómi Hæstaréttar.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um hvernig almenningur lætur undan félagslegum þrýstingi. Af ótta við slaufun rangtúlka einstaklingar eigin skoðanir og veigra sér við að taka afstöðu til pólitískt og samfélagslega viðkvæmra álitaefna út frá sannfæringu heldur því sem þykir pólitískt „rétt“.

Engin lög hægt að setja

J.D. Tuccille, pistlahöfundur Reasons-tímaritsins, segir að það sé ekki auðvelt verkefni að koma í veg fyrir sjálfsritskoðun og slaufun. Engin lög sé hægt að setja. Eina úrræðið sé að menning frjálsra samfélaga fái innspýtingu umburðarlyndis og fram komi einstaklingar sem hafa burði til að andmæla.

Pólitísk rétthugsun og slaufunarmenning er í einfaldleika sínum annað andlit stjórnlyndis. Að baki liggur sannfæring um að þjóðfélögum farnist best ef almenningur fylgir leiðbeiningum og ákvörðunum ósýnilegrar elítu, sem „hannar“ samfélagið, tekur að sér að stjórna umræðunni og ákveða hvaða skoðanir skuli teljast „réttar“ og hverjar „rangar“. Hættan er sú að einstaklingum þyki þægilegra að sætta sig við að þegja eða setja sig í fjötra sjálfsritskoðunar. Ekki vegna þess að þeir óttist að öryggislögregla banki upp um miðja nótt líkt og í alræðisríkjum, heldur vegna hræðslu við viðbrögð nágranna, vinnufélaga og samferðafólks. Áhyggjur af efnahagslegri velferð og samfélagslegri útskúfun koma í veg fyrir að einstaklingar láti innri sannfæringu í ljós.

Afleiðingin er að dýnamík og fjölbreytni frjálsra samfélaga hverfur hægt og bítandi. Frjáls skoðanaskipti og rökræður eru drifkraftur mannshugans og forsenda fyrir framþróun í vísindum og tækni. Pólitísk rétthugsun og slaufunarmenning vinna þannig gegn bættum lífskjörum allra.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :