Látum barnfóstruna redda þessu

Látum barnfóstruna redda þessu

Almenningur er fávís og því þarf að hafa vit fyrir honum og verja gagnvart sjálfum sér. Auðvitað er þetta aldrei sagt upphátt en er þó grunnstefið í hugmyndafræði stjórnlyndra manna, sem telja nauðsynlegt að ríkið sé alltumlykjandi. Án barnfóstru ríkisins sé hætta á að einstaklingar fari sér að voða eða valdi samferðamönnum sínum skaða.

Ekkert mannlegt er barnfóstrunni óviðkomandi og vandmál eru hennar sérgrein. Þetta vita hinir stjórnlyndu og við hin sitjum aðgerðalítil hjá. Stjórnsýslan, fjölmiðlar og stjórnmálin eru gegnsýrð af hugmyndafræði barnfóstruríkisins. Ekkert vandamál er of lítið og ekkert of stórt til að barnfóstran sé ekki kölluð á vettvang. Og nú þarf fóstran ekki aðeins að huga að íslenskum „kjánum“ heldur ekki síður að þeim þúsundum erlendra ferðamanna sem streyma til landsins.

Ferðmenn á ábyrgð fóstrunnar

Nú skal ríkisfóstran tryggja öryggi á öllum ferðamannastöðum landsins, setja upp skilti og koma fyrir vaktmönnum allan sólarhringinn til að koma í veg fyrir að „fávísir“ lendi í háska. Umsvifamiklir aðilar í ferðaþjónustu anda léttar – ábyrgðin á ferðamönnum (viðskiptavinunum) verður ekki lengur þeirra.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir í dagbókarfærslu síðastliðinn laugardag að engu sé líkara en að þeir sem hafa mestan hag af ferðaþjónustunni „líti á það sem samfélagslegt vandamál að gestunum sé ekki búið öryggi í samræmi við hættur“:

„Raunar er óskiljanlegt hve rík þörf er til að breyta viðfangsefnum sem í raun eru á ábyrgð landeigenda eða skipulagsyfirvalda á viðkomandi stað í vanda sem ríkisvaldinu beri að leysa. Hvar verða menn varir við aðgerðir til að draga skýrar línur og marka ábyrgð hvers og eins? Ábyrgðin á eigin öryggi hvílir auðvitað fyrst og síðast á einstaklingnum sjálfum.“

Ríkisfóstran mun aldrei skilja rök af þessu tagi heldur breiðir hún út faðminn í óendanlegri góðmennsku sinni. Reglur, eftirlit, boð, bönn og höft eru einkunnarorðin sem hún vinnur eftir.

Umhyggja fyrir landsmönnum

Á meðan fóstran er stöðugt á vaktinni og gætir þess að enginn fari sér að voða eru þingmenn uppteknir við að „framleiða“ og leggja fram frumvörp, þingsályktunartillögur, fyrirspurnir og beiðnir um skýrslur.

Auðvitað er þingmönnum umhugað um velferð landsmanna. Þeir hafa bara hver sinn háttinn á að sýna umhyggjuna. Á meðan einn leggur til að komið verði á fót embætti umboðsmanns aldraðra vill annar stofna embætti umboðsmanns flóttamanna. Þingmenn hafa einnig áhuga á börnum og ungmennum og vilja því að settur sé á laggirnar starfshópur til að semja áætlun sem miði að því „að auka vitund og virkni barna og ungmenna í lýðræðisferli samfélagsins“. Aðrir leggja til að sérstakur dagur verði ár hvert „helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins“. Tillaga um að minnast „með táknrænum hætti alþjóðlega lýðræðisdagsins 15. september ár hvert“ bíður einnig afgreiðslu.

Heill þingflokkur, sem hafði rúm fjögur ár til margvíslegra aðgerða, hefur lagt fram tillögur „um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum“. En ríkisstjórnin býður betur. Hugmyndir um stóraukin útgjöld til húsnæðisbóta, uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis, er í anda ríkisbarnfóstrunnar sem ólíkt öðrum barnfóstrum hefur lítinn áhuga að sleppa hendinni af „óvitunum“. Barnfóstra ríkisins hugsar með hryllingi til þess að einstaklingar eigi möguleika á að eignast sitt eigið húsnæði og verða fjárhagslega sjálfstæðir.

Hörð samkeppni

Nokkrir þingmenn hafa skýra hugmynd um nauðsyn þess að stofna Landsiðaráð. Ekki langt undan er tillaga um loftslagsráð en aðrir leggja til að kanna „fýsileika þess að stofna ofbeldisvarnaráð sem verði falið að samhæfa rannsóknir og framkvæmd forvarna gegn ofbeldi á Íslandi“.

Þingmenn úr öllum þingflokkum nema Framsóknarflokki telja rétt að Alþingi feli „ríkisstjórninni að skipa nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun“. Markmiðið er að auka þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði.

Í leit að þingmálum til heilla fyrir þjóðina er samkeppnin hörð. Reyndar svo hörð að þingflokkar bítast sín á milli, meira að segja þeir sem áður sátu saman í ríkisstjórn. Báðir vilja þeir þjóðgarð á miðhálendi Íslands en náðu greinilega ekki saman um einfalda tillögu og því voru tvær lagðar fram sama daginn. Ekkert er gefið eftir í samkeppni á sviði umhverfisverndar.

Auðvitað má ekki gleyma seinkun klukkunnar eða stofnun ríkisverksmiðju til að framleiða áburð eða tillögu um að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum enda talið best að fóstra sem mest af landinu hjá ríkinu.

Hugmyndir gegn fóstrunni

Þeir eru hins vegar til sem vilja hrista upp í kerfinu, skera það upp og jafnvel kíkja undir þykk teppi ríkisvaldsins. Tillaga um rannsókn á einkavæðingu bankanna – hinni síðari – er gott dæmi. Sú tillaga virðist þó af einhverjum ástæðum vera föst – ekki fengist rædd í þingsölum eftir að hafa beðið í tæpa fjóra mánuði. Einhverjir þingmenn eru á því að opna allt bókhald ríkisins og ríkisstofnana, og þeir eru til sem velta því fyrir sér að rétt sé að lækka skatta, draga úr umsvifum ríkisins og koma böndum á eftirlitsiðnaðinn.

En slíkar hugmyndir ganga gegn því sem ríkisfóstran er að reyna að tryggja – að enginn fari sér að voða. Þetta vita að minnsta kosti allir sem eru orðnir vanir því að fóstran reddi þessu öllu og forði sem flestum undan ábyrgð.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :