Jafnræði og nátttröll

Jafnræði og nátttröll

Allir, óháð því hvar þeir eru í litrófi stjórnmálanna, vilja a.m.k. í orði tryggja jafnræði einstaklinga og fyrirtækja. Það gengur hins vegar misjafnlega að uppfylla fyrirheit um jafna stöðu allra. Raunar hefur löggjafinn gengið þvert á hugmyndir um jafnræði með því að byggja undir forskot og sérréttindi með lögum og reglum.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði ásamt nokkrum félögum sínum fram frumvarp um breytingar á áfengislögum. Tilgangurinn var og er einfaldur. Annars vegar að eyða lagalegri óvissu sem hefur skapast um vefverslun með áfengi og hins vegar að tryggja jafnræði milli innlendra og erlendra aðila. Í greinargerð frumvarpsins er bent á að samkvæmt lögum sé ekki „óheimilt að almenningur kaupi áfengi í útlöndum og flytji til landsins til einkaneyslu“. Sem sagt: Gildandi lagaumhverfi gerir íslenskum neytendum „kleift að kaupa áfengi að vild frá erlendum áfengisverslunum, aðallega á netinu, án þess að skýrt sé að þeim sé heimilt að gera slíkt hið sama í innlendri vefverslun“.

Lagaleg óvissa virðist ríkja um hvort heimilt sé að starfrækja vefverslun með áfengi hér á landi vegna einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. „Frumvarpinu er ætlað að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar að þessu leyti og undirstrika lögmæti innlendrar netverslunar með áfengi.“

„Stórkostlegt fyrirbæri“

Í viðtali við fréttastofu ríkisins í byrjun mánaðar sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hins vegar að ekkert benti til þess að áfengissala í gegnum netið stangaðist á við lög en þó væri ljóst að stjórnvöld þyrftu að skýra lagaumgjörðina. „Þetta er nútíminn… Og já ég tel að vefverslun sé bara stórkostlegt fyrirbæri og almennt enda hefur vefverslun stóraukist hjá Íslendingum.“ Ráðherra talar þannig skýrt.

Þrátt fyrir fyrirheit um að vinna að jafnræði fyrirtækja og einstaklinga var komið í veg fyrir að frumvarp Hildar Sverrisdóttur yrði afgreitt úr nefnd og kæmi til atkvæðagreiðslu í þingsal. Við atkvæðagreiðslu hefði komið í ljós hvort sannfæring liggur að baki yfirlýsingum þingmanna og þingflokka um lagalegt jafnræði eða hvort þær eru aðeins til skrauts þegar það þykir henta.

Ekki verður séð hvernig löggjafinn og ríkisstjórnin komast undan því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum í takt við það sem Hildur Sverrisdóttir hefur lagt til. Þá er vert að hafa í huga það sem segir í greinargerð frumvarps hennar: „Fá, ef einhver dæmi, má finna í íslenskum lögum þar sem almenningi er heimilt að kaupa vörur af erlendum verslunum til innflutnings, en óheimilt að kaupa sömu vöru af íslenskri verslun. Núverandi fyrirkomulag stenst ekki kröfur um jafnræði og er því nauðsynlegt að breyta lögunum til að tryggja jafnræði og samkeppnishæfni innlendrar verslunar við þá erlendu.“

Forréttindi ekki jafnræði

Vefverslun með áfengi er ekki einsdæmi um hvernig löggjafinn hefur sýnt að oft liggur lítið að baki öllu tali um jafnræði. Meirihluti þingsins hefur í áratugi virt jafnræðisreglu að vettugi þegar kemur að lagalegri umgjörð fjölmiðla. Í stað þess að plægja akurinn fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla hefur verið lagt ofurkapp á að tryggja forréttindi ríkisrekins fjölmiðils. Frammi fyrir forréttindunum og afli alþjóðlegra stórfyrirtækja mega sjálfstæðir íslenskir fjölmiðlar sín lítils. Frjáls fjölmiðlun á Íslandi stendur höllum fæti.

Auðvitað segjast allir stjórnmálamenn styðja frjálsa fjölmiðlun en fæstir þeirra sjá eða skilja þá mótsögn sem felst í því að berjast fyrir sjálfstæðum fjölmiðlum og standa vörð um ríkisrekna miðlun frétta og upplýsinga, sem nýtur sérstakra forréttinda í harðri samkeppni. Varnarmúrinn sem byggður hefur verið um ríkisrekstur fjölmiðils hefur aldrei rofnað og litlar líkur eru á því að leikreglunum verði breytt á komandi árum. Þar munu þingmenn berjast gegn tækniþróun framtíðarinnar líkt og á fleiri sviðum.

Þróunin tekur völdin

Sem eins konar syndaaflausn fyrir að viðhalda forréttindum ríkisfyrirtækisins þar sem jafnræðisreglan er þverbrotin hafa stjórnvöld og þingmenn ákveðið að innleiða flókið kerfi ríkisstyrkja fyrir sjálfstæða miðla. Með „aflátsbréf“ upp á vasann koma stjórnmálamenn sér undan því að jafna stöðu einkarekinna og ríkisrekinna fjölmiðla.

Að gagnrýna ríkismiðilinn er eins og kasta vatni á gæs. Gagnrýnandinn er áhrifalaus enda getur hann ekki slitið viðskiptasambandi sínu við ríkismiðilinn með því að segja upp „áskriftinni“ – hætta að greiða útvarpsgjaldið. Og fáir hafa áhuga á því að lenda upp á kant við Efstaleiti – ekki stjórnmálamenn, forystumenn í atvinnulífinu eða listamenn. Þá er betra að þegja eða jafnvel taka sér stöðu með lögvernduðum forréttindum ríkismiðilsins. Afleiðingin er aðhaldsleysi sem hefur myndað þjóðfélagslegt tómarúm um starfsemina í Efstaleiti sem lifir sjálfstæðu lífi þar sem enginn ber ábyrgð gagnvart þeim sem þvingaðir eru til að greiða milljarða á hverju ári í reksturinn.

Tækniframfarir, breyttir verslunarhættir og ný viðhorf hafa gert ÁTVR og Ríkisútvarpið að nátttröllum samtímans, sem standa enn í skjóli forréttinda þar sem jafnræði er að engu haft. Löggjafinn getur valið sér sama hlutskipti en fyrr eða síðar tekur framþróunin völdin.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :