Markaðstorg skoðana og upplýsinga

Markaðstorg skoðana og upplýsinga

Ef búið er til þjóðmálatorg þar sem stjórnmálamenn, blaðamenn, fræðimenn, listamenn – hinar talandi stéttir – rökræða stöðugt hver við annan, fella palladóma um menn og málefni, deila skoðunum og upplýsingum og fá viðbrögð lesendum strax er ekki undarlegt að til verði öflugt verkfæri til að hafa áhrif á skoðanir og jafnvel þær upplýsingar sem taldar eru gildar. Almennir borgarar reyna að hasla sér völl á torginu og setja fram sínar skoðanir og gagnrýni. Á margvíslegum skoðanatorgum er sumum hampað en öðrum ekki – einhverjir eru fordæmdir á meðan aðrir eru hafnir upp til skýjanna. Hægt og bítandi byrjar torgin að móta alla umræðu samfélagsins og þar með er lagður grunnur að því að móta samfélagsgerðina.

Það á ekki að koma neinum á óvart að það sér eftirsóknarvert að hafa áhrif á leikreglur þjóðmálatorgsins og stjórna því hvaða efni er kynnt, hvað er sett til hliðar og hvað ekki. Einræðis- og alræðisstjórnir leggja mikið á sig til að taka að sér fundarstjórn á þjóðmálatorgum eða hreinlega loka þeim sem þeim eru ekki að skapi. Fyrir stjórnlynda auðmenn er freistingin til að kaupa hreinlega fundarstjórnina mikil. Stjórnmálamenn hóta laga- og reglugerðarsetningu af ótta við að torgin verði vettvangur skoðana sem eru þeim ekki geðþekkar eða grafi undan þeirra eigin hugmyndafræði. Og svo eru þeir sem vilja tryggja að þjóðmálatorgin séu lifandi og opinn vettvangur frjálsra skoðanaskipta – þar sem staðin er trygg varðstaða um málfrelsi almennings.

Endurskipulagning þjóðmálatorgs

Auðkýfingurinn Elon Musk, fullyrðir að hann sé í síðastnefnda hópnum. Með yfirtöku á Twitter – einum áhrifamesta samfélagsmiðli heims – segist Musk ætla að endurskipuleggja þjóðmálatorgið á Twitter til að tryggja skoðanafrelsi og ýta undir öflug skoðanaskipti og dreifingu upplýsinga. Hvort hann stendur við fyrirheitin á eftir að koma í ljós, en ýmislegt bendir til að honum sé alvara.

Áhrifamiklir samfélagsmiðlar eins og Twitter og Facebook, hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir tilraunir til ritskoðunar. Hér verður ekki farið út í þá gagnrýni að sinni og flestir muna eftir harðvítugum deilum Trumps, fyrrum Bandaríkjaforseta og forráðamanna Twitter.

Þjóðmálatorg Twitters er aðeins hluti af óskilgreindu og fjölbreytilegu markaðstorgi fyrir netsamskipti, afþreyingu, frétta- og upplýsingamiðlun. Markaðstorgið er óstöðugt – síbreytilegt þar sem jafnvel öflugustu leikmennirnir verða undir á endanum.

Forráðamenn Netflix byggðu upp afþreyingarveldi enda sannfærðir um að vöxtur fyrirtækisins gæti orðið endalaus. Þeir höfðu rangt fyrir sér og áskrifendum fækkar í fyrsta skipti enda í harðri samkeppni við nýja leikmenn; inn á sviðið hafa stigið Hulu, Apple TV+ og Disney+.

Í heimi streymisveitna hefur gömlum risum í kapalheiminum gengið erfiðlega að fóta sig. CNN, einn áhrifamesti fréttamiðil heims um árabil, má muna fífil sinn fegurri. Mánuði eftir að hafa kynnt eigin streymisveitu, CNN+ var ákveðið að leggja hana niður. Það ævintýri kostnaði 300 milljónir dollara. Áhorf á CNN hefur hrapað.

Og jafnvel Facebook er í erfiðleikum. Notendum samfélagsmiðilsins er að fækka og tækni- og skilmálabreytingar í farsímum hafa höggið skarð í auglýsingatekjur. Google er ekki lengur vinsælasta vefsíða heims. Og hver man eftir Yahoo?

Flest eru þessi fyrirtæki enn öflugt en sum hafa hrasað. Og þeim er stöðugt ógnað af nýjum aðilum, nýrri tækni og nýrri hugsun. Markaðstorgið er kvikt og nær aldrei jafnvægi, ólíkt því sem stjórnlyndir fjölmiðla- og stjórnmálamenn vilja telja okkur trú um í viðleitni sinni að koma böndum á þjóðmálatorgið – innleiða einskonar opinbera fundarstjórn.

Frjáls skoðanaskipti

Elon Musk er óvenjulegur auðmaður – umdeildur frumkvöðull sem hefur verið óhræddur að segja sínar skoðanir. Hann hefur komið fram sem harður baráttumaður málfrelsis og segist ætla að breyta Twitter til að tryggja að samfélagsmiðilinn verði vettvangur frjálsra skoðanaskipta. Musk er sannfærður um að þar hafi forráðamönnum Twitter er mislagðar hendur en einnig að hægt sé að ná miklu betri árangri í rekstri fyrirtækisins.

Viðbrögðin við yfirtöku Musk á Twitter hafa verið áhugaverð. Margir vinstri menn um allan heim eru að fara af límingunum. Ritskoðun sem sumir samfélagsmiðlar hafa innleitt síðustu ár hefur verið í góðri sátt við pólitískan rétttrúnað og það hentar stjórnlyndum mönnum vel. Búast má við að Musk gangi á hólm við rétttrúnaðinn og hafni ritskoðun síðustu ára.

Að þessu leyti er yfirtakan á Twitter fagnaðarefni en um leið eykst hættan á að stjórnmálamenn grípi til aðgerða til að koma böndum á þjóðmálatorgið og til þess munu þeir nóta stuðning áhrifamikilla einstaklinga úr röðum talandi stétta, sem telja sig þess betur umkoma en aðra að móta umræðuna og þar með samfélagið allt.

Þannig mun líklega sannast enn og aftur það þeir sem mest eru uppteknir af því að kenna sig við umburðarlyndi og tala hæst um málfrelsi og réttinn til að láta skoðanir sínar í ljós, eru í hjarta sínu stjórnlyndir og sannfærðir um nauðsyn þess að koma á fót öflugum eftirlitsstofnum með fjölmiðlum og þjóðmálatorgum. Þjóðmálatorg skoðanaskipta skulu því færð í farveg reglugerða og flókinna laga.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :