Útgjaldasinnar hafa yfirhöndina


Desember er og verður líklega um ókomna tíð hættulegasti mánuður ársins fyrir skattgreiðendur. Þeir eiga erfitt með að verjast þegar atgangurinn er hvað mestur við afgreiðslu fjárlaga. Þá vilja margir vera góðir fyrir annarra manna fé og sérhagsmunir fá tækifæri til að tryggja sitt. Kerfið er í sérstakri viðbragðsstöðu líkt og björgunarsveitir í óveðri – ekkert má fara úrskeiðis, litlu má breyta og útgjöldin skal tryggja.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram tillögur til breytinga á frumvarpi til fjárlaga næsta árs og þar er gefið nokkuð í. Útgjöld ríkissjóðs, fyrir utan vaxtagjöld, munu samkvæmt þeim hækka um 10,6 milljarða króna frá því sem gert var ráð fyrir. Augljóst er að fjárlaganefnd hefur átt í vök að verjast og ekki eru allir nefndarmenn ánægðir með niðurstöðuna.

Í viðtali við Morgunblaðið síðastliðinn laugardag sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, að orð og efndir fari ekki alltaf saman. Þótt menn séu í orði tilbúnir í breytingar þá vanti viljann og samspil framkvæmdavalds og þingmeirihluta til að hrinda þeim í framkvæmd. Tregðulögmál séu „hrikalega sterk“.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og Guðlaugur Þór, áttu sæti í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar sem skilaði róttækum tillögum til að spara í rekstri ríkisins, meðal annars með uppskurði eftirlitsstofnana líkt og heitið er í stjórnarsáttmála. Tillögurnar voru lagðar fram í nóvember 2013. Eftirtekjan hefur því miður verið takmörkuð eða eins og Guðlaugur Þór sagði við Morgunblaðið:

„Það gengur erfiðlega að spara hjá stofnunum. Kerfið ver sig með öllum ráðum. Það skortir skilning á mikilvægi þess að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og hafa í þessu tilfelli einfalt og skilvirkt eftirlitskerfi. Þetta er útlagður kostnaður skattgreiðenda og það er líka í þessu fólginn mikill óbeinn kostnaður fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu, eins og allir vita… Fjárlögin eru illskiljanleg og það er iðulega verið að ræða smærri mál í stað þess að ræða stóru málin.“

Gríðarleg aukning tekna

Verði fjárlagafrumvarpið afgreitt með þeim breytingum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til, verða útgjöld ríkisins á komandi ári um 111 milljörðum krónum hærri en árið 2009 og tekjur 261 milljarði hærri. Árið 2009 var gríðarlegur halli á ríkissjóði eða liðlega 139 milljarðar en á næsta ári er vonast eftir 10,7 milljarða afgangi. Umskiptin eru algjör.

Þegar þetta er skrifað hefur önnur umræða um fjárlög ekki farið fram. Fyrirfram er ekki hægt að reikna með að mikil umræða verði um hagsmuni skattgreiðenda. Fáir þingmenn velta því fyrir sér hvort gríðarleg aukning á tekjum ríkisins skapi ekki svigrúm til að lækka skatta. Á komandi ári er reiknað með að skatttekjur ríkisins verði í heild um 70% hærri en 2009; tekjuskattur einstaklinga um 59% hærri og tryggingagjald 87% hærra.

Hækkun skatttekna er birtingarmynd efnahagsástandsins. Það viðrar vel og þrátt fyrir afnám almennra vörugjalda og flestra tolla, lækkun á tekjuskattsprósentu einstaklinga og niðurfellingu milliþreps, eru tekjur ríkissjóðs að aukast. En þær geta aukist enn meira ef gengið er rösklega til verks í róttækum kerfisbreytingum og skattalækkunum líkt og reynslan hefur sýnt.

Frá árinu 1991 beitti Sjálfstæðisflokkurinn sér fyrir umfangsmiklum breytingum á skattkerfinu. Tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja var lækkaður, aðrir skattar ýmist lækkaðir eða felldir niður.

Niðurstaðan: Skatttekjur ríkissjóðs jukust verulega. Frá 1991 til 2007 tvöfölduðust tekjurnar að raunvirði.

Lærdómurinn: Hófsemd í skattheimtu styrkti skattstofa ríkisins og þeir gáfu meira af sér.

Dæmi: Tekjuskattur fyrirtækja var 50% árið 1985 en var kominn niður í 18% árið 2003. Skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækkaði hins vegar úr 0,9% í 1,5%.

Yfirboð og kapphlaup

Því miður verður krafan um meiri hófsemd í skattlagningu ekki hávær. Uppskurður í ríkisrekstrinum fær lítinn hljómgrunn og spurningar um hlutverk og skyldur ríkisins verða víðsfjarri í umræðum um fjárlög næsta árs.

Umræðan mun snúast um aukin útgjöld. Og það verður kapphlaup. Stjórnarandstaðan hefur þegar hafist handa við hressileg yfirboð. Ellilífeyrir skal hækkaður og örorkubætur einnig, framlög til Landspítalans aukin verulega og síðast en ekki síst skal tryggja Ríkisútvarpinu þá fjármuni sem starfsmenn og stjórnendur stofnunarinnar láta sig dreyma um í sínum villtustu draumum.

Útgjaldasinnar láta sér fátt um finnast þótt útgjöld vegna félagslegrar aðstoðar verði 60% hærri á næsta ári en 2009 – um 5,8 milljarða hækkun. Í yfirboðum sínum vekur stjórnarandstaðan ekki athygli á því að útgjöld vegna lífeyristrygginga verða 70% hærri en fyrsta árið sem fyrsta hreinræktaða vinstri stjórnin var við völd.

Það er merkilegt að ríkisstjórn sem stefnir að því að aukna útgjöld til lífeyristrygginga – til eldri borgara og öryrkja – um nær 34,9 milljarða frá 2009, skuli vera í vörn. Jafnvel harðasta vinstri stjórn hefði barið sér hressilega á brjóst fyrir slíka hækkun útgjalda.

Verst er að enginn veltir því fyrir sér hvernig standi á því að fjölmargir einstaklingar búa við kröpp kjör þrátt fyrir að gríðarlegir fjármunir renni til almannatryggingakerfisins. Kannski er það dauðasynd að spyrja: Er kerfið ekki meingallað þegar við náum ekki aðstoða þá sem verst standa þannig að þeir geti lifað lífinu með reisn?

Svipað má segja um sjúkrahús og Landspítalann sérstaklega. Í umræðum um fjárlög verður örugglega haldið áfram  að hamra járnið svo almenningur trúi því – þvert á staðreyndir – að ríkisstjórnin sé blóðug upp fyrir haus í niðurskurði. Það verður að teljast nokkuð afrek þegar tekst að snúa staðreyndum á hvolf þannig að tæplega 20 milljarða aukning frá 2009, teljist niðurskurður.

Viðspyrnan gegn auknum útgjöldum er lítil og í góðæri veikist hún enn frekar. Þeir fáu sem reyna að standa á bremsunni eru bornir ofurliði af útgjaldasinnum, sem njóta dyggs stuðnings sérhagsmuna og kerfisins sem þenst út. Allt í boði skattgreiðenda á aðventunni.

Share