Skattfrádráttur vegna heimilishjálpar

Skattfrádráttur vegna heimilishjálpar

Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um skattalegan frádráttar vegna heimilishjálpar. Verði frumvarpið samþykkt verður heimilt að draga fjárhæð að hámarki 1,8 milljónir króna ári eða 150 þúsund krónur að meðaltali á mánuði frá tekjuskattsstofni einstaklings. Fyrsti flutningamaður er Óli Björn Kárason en Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Haraldur Benediktsson standa einnig að baki frumvarpinu.

Frádrættinum er ætlað að ná til starfa sem innt eru af hendi hér á landi á heimili einstaklings og í sumarbústað þar sem einstaklingur dvelur. Þetta á meðal annars við um hefðbundin heimilisstörf, svo sem þrif og hreingerningar, hefðbundin garðyrkjustörf eða snjómokstur á gangstéttum og í innkeyrslu að heimili. Þá er ákvæðinu jafnframt ætlað að ná til annars konar umönnunar, svo sem umönnunar heimilismanna vegna veikinda eða fötlunar, umönnunar barna, sem felur m.a. í sér aðstoð við heimavinnu og fleira skólatengt, ásamt því að fylgja börnum í og úr leikskóla, skóla og frístundastarfi. Ákvæðinu er einnig ætlað að taka til aðstoðar við einstakling í tengslum við ferðir til og frá heimili, t.d. ferðir á heilsugæslustöð, í banka eða annað sambærilegt.

Flutningsmenn telja að með lögfestingu skattafrádráttar vegna aðkeyptrar heimilishjálpar sé komið til móts við einstaklinga og fjölskyldur, einkum barnafjölskyldur, með margvíslegum hætti. Þá mun breytingin einnig gagnast eldri borgurum sem vilja búa áfram á eigin heimili en þurfa á þjónustu að halda við almenn heimilisþrif og önnur létt heimilisstörf.

Markmiðið frumvarpsins er einnig að sporna við svartri atvinnustarfsemi auk þess sem hægt verður að auka réttindi þess fólks sem vinnur í dag þau störf sem hér eru talin. Með því er m.a. átt við lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur.
    
Sambærilegar heimildir til skattalegs frádráttar er m.a. að finna í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi þó að útfærslan sé misjöfn eftir löndum.

Frumvarpið er hægt að lesa hér.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :