500 milljarða Grettistak

500 milljarða Grettistak

Við Íslendingar erum í öfundsverðri stöðu. Tekist hefur að
koma aga á ríkisfjármálin, skuldir fara lækkandi, hagvöxtur er góður, störfum
fjölgar og kaupmáttur eykst. Á sama tíma berjast flest lönd Evrópu við
margvíslega erfiðleika og Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur lýst
yfir  „efnahagslegu og félagslegu neyðarástandi“.

Tækifærin til sóknar og betri lífskjara hafa sjaldan verið
betri hér á landi. Stoðir efnahagslífsins eru flestar sterkar og með lækkandi
skuldum ríkissjóðs er búið í haginn fyrir framtíðina. Á síðastliðnu ári greiddi
ríkissjóður fyrirfram um 150 milljarða króna af innlendum og erlendum skuldum
og að öðru óbreyttu lækka árlegar vaxtagreiðslur um sjö milljarða króna vegna
þessa. Fyrir þá fjárhæð er til dæmis hægt að reka Sjúkrahúsið á Akureyri í eitt
ár og gott betur.

Á þessu ári verður haldið áfram að greiða skuldir ríkisins
og verða þær komnar niður fyrir 50% af landsframleiðslu í árslok. Lægri skuldir
ríkissjóðs gefa möguleika á að lækka skatta myndarlega, styrkja stöðu
launafólks og auka kaupmátt. Ríkisstjórnin hefur öll tækifæri til að vinda ofan
af „you ain’t seen nothing yet“-skattavitleysu vinstri stjórnarinnar. Það væri
ekki ónýtt fyrir stjórnarflokkana að mæta kjósendum vorið 2017 og hafa endurreist
heilbrigt skattkerfi.

Syndir kynslóðanna

Með nokkurri einföldun má halda því fram að skuldasöfnun
hins opinbera sé syndaregistur kynslóðanna sem þeim sem á eftir koma er ætlað
að standa skil á.

Með greiðslu skulda er því gert upp við gamla tíma, hætt að
gefa út víxla á komandi kynslóðir en þess í stað búið í haginn fyrir þær. Komið
er í veg fyrir að syndir feðranna komi niður á börnunum.

Syndaregistur kynslóðanna er hins vegar ekki aðeins skrá
yfir skuldir heldur ekki síður yfirlit yfir hvernig sameiginlegum fjármunum
hefur verið varið. Og það yfirlit er ekki sérlega fallegt. Stór hluti útgjalda
ríkisins (ég læt sveitarfélögin og þá Reykjavík sérstaklega liggja á milli
hluta þótt skráin sé þar ægisvört), fer í annað en það sem flestir ef ekki
allir telja mikilvægast; heilbrigðismál, menntamál, löggæslu og öryggismál,
almannatryggingar og innviði til að búa í haginn fyrir framtíðina.

En líkt og með skuldirnar hafa Íslendingar einstakt tækifæri
til að leiðrétta misgjörðir liðinna ára. Með umfangsmiklum fjárfestingum í
innviðum samfélagsins, jafnt efnahagslegum sem félagslegum, verða syndir
fortíðarinnar gerðar upp. Dæmi um efnahagslega innviði eru samgöngumannvirki,
orkuvinnsla og -dreifing og fjarskipti. Félagslegir innviðir eru meðal annars
skólar, byggingar fyrir heilbrigðisþjónustu, fangelsi, og íþróttahús.

500 milljarða þörf

Sérfræðingar fjármálafyrirtækisins Gamma telja að uppsöfnuð
fjárfestingarþörf í efnahagslegum og félagslegum innviðum sé 12-15% af
landsframleiðslu. Í ítarlegri grein sem Gísli Hauksson, forstjóri Gamma,
skrifaði í tímaritið Þjóðmál í desember sl., kemur fram að fjárfestingarþörfin
í innviðum næstu 7-10 árin sé að minnsta kosti 500 milljarðar eða um 25% af
vergri landsframleiðslu.

Traustir innviðir eru forsenda hagsældar og því þurfa
Íslendingar að lyfta 500 milljarða Grettistaki á komandi árum. Þar hlýtur
bygging Landspítalans að vera í forgangi samhliða endurreisn samgöngukerfisins
og öflugu fjarskiptaneti.

Á fundi Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga
um fjármögnun innviðafjárfestinga, sem haldinn var fyrir nokkru, kom fram að
opinberar fjárfestingar hafa ekki aukist þrátt fyrir efnahagslega uppsveiflu. Á
fyrsta áratug aldarinnar var opinber fjárfesting iðulega 4-5% af
landsframleiðslu, en er nú aðeins um 3%. Í áðurnefndri grein Gísla Haukssonar
kemur fram að framkvæmdafé til samgöngumála hefur dregist saman um 70% frá
hruni.

Uppgjör þrotabúa bankanna, stöðugleikaframlag, lækkun skulda
ríkissjóðs, sterk staða lífeyrissjóðanna, öflugir fjárfestar og offjármagnað
bankakerfi, gefa íslensku samfélagi bolmagn til að ráðast í nauðsynlegar
fjárfestingar og uppbyggingu innviða. Ríkið þarf að taka höndum saman við
einkaaðila – lífeyrissjóði og aðra fjárfesta – þannig að fjármögnun arðbærra
fjárfestinga sé tryggð.

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs
Íslands, bendir á að umgjörð vanti utan um samvinnuverkefni ríkis og
fagfjárfesta á sviði innviðafjárfestinga. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir
Þorkell að tækifærin séu til staðar en til að þau raungerist þurfi stóra og
sérhæfða sjóði, skýran lagaramma og stefnumótun af hálfu stjórnvalda. Hann
kallar einnig eftir frumkvæði frá lífeyrissjóðunum og að menn hafi „stærri sýn,
meiri kjark og koma að þessu með myndarlegri hætti“.

Hugmyndir Þorkels eru í takt við þær skoðanir sem Gísli
Hauksson setti fram í áðurnefndri Þjóðmálagrein. Á meðan ríkið nýtir sér ekki
kosti einkaframkvæmdar og einkafjármögnunar verður þjóðarbúið fyrir skaða.
Þannig er þjóðhagslegt tap að hafa ekki hafist handa við Sundabraut fyrir 10
árum, eins og að var stefnt, á bilinu 12-15 milljarðar. Fátt hentar betur í
einkaframkvæmd hér á landi en Sundabraut.

Fjárfestingaráætlun

Samhliða því að sníða umgjörðina fyrir samstarf ríkisins og
einkaaðila í innviðafjárfestingum er nauðsynlegt að gerð verði ítarleg
fjárfestingaráætlun til næstu ára. Inn í þá áætlun á ekki aðeins að taka
fjárfestingar ríkissjóðs heldur allra ríkisfyrirtækja – ekki síst
orkufyrirtækja.

Samhliða er nauðsynlegt að kynnt sé áætlun um sölu
ríkiseigna, hvort heldur það eru flugstöðvar eða fjármálafyrirtæki, fasteignir
eða ríkisfyrirtæki. Markmiðið er að nýta ríkiseignir með arðbærari og
skynsamlegri hætti en nú. Umbreyta eign í bönkum í sjúkrahús og lægri skuldir,
lægri vexti.

Eitt er a.m.k. víst: Fjárfesting í öflugri
heilbrigðisþjónustu er miklu arðbærari en að binda skuldsett áhættufé í
bankastarfsemi. Og lífsgæðin verða meiri.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :