Pólitískt ofbeldi og óþol

Pólitískt ofbeldi og óþol

Þráður­inn verður stöðugt styttri. Umb­urðarlyndi og þol­in­mæði eiga í vök að verj­ast. Stjórn­mála­menn, al­menn­ing­ur og fjöl­miðlamenn fella dóma yfir mönn­um og mál­efn­um án þess að hika. Tungu­takið er harðara en áður, stund­um ofsa­fengið og sví­v­irðilegt. Hjólað er af hörku í ein­stak­linga sem varpa fram öðrum sjón­ar­miðum – hafa aðra sýn á hlut­ina. Sam­fé­lag sam­tím­ans refs­ar um­svifa­laust. Litli dreng­ur­inn sem af hrein­skilni benti á að keis­ar­inn væri ekki í nein­um föt­um hefði verið smánaður á sam­fé­lags­miðlum. Óþol sam­tím­ans veit­ir fáum grið.

Þegar ráðherra kemst klaufa­lega að orði nýta sam­verka­menn í öðrum rík­is­stjórn­ar­flokki tæki­færið og ráðast á hann með ósvífni þess sem ótt­ast dap­urt gengi þegar inn­an við eitt ár er í kosn­ing­ar. Útúr­snún­ing­ur og orðhengils­hátt­ur yf­ir­tek­ur dreng­skap og lítið er gefið fyr­ir sam­vinnu og traust ólíkra flokka sem standa að rík­is­stjórn á erfiðum tím­um. Póli­tísk­ur hrá­skinna­leik­ur tek­ur yfir orðræðuna líkt og oft ger­ist þegar stjórn­mála­menn lít­illa sanda og lít­illa sæva reyna að gera sig gild­andi á kostnað annarra.

Þingmaður, sem leyf­ir sér að ef­ast op­in­ber­lega um hert­ar aðgerðir þar sem gengið er frek­lega á borg­ara­leg rétt­indi í al­var­legri bar­áttu við kór­ónu­veiruna, fær það óþvegið á sam­fé­lags­miðlum, í fjöl­miðlum og tölvu­póst­um. Inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins spila sum­ir und­ir. Þing­mann­in­um eru gerðar upp skoðanir og hann sakaður um mann­fyr­ir­litn­ingu og skort á sam­kennd. Þó gerði hann ekki annað en spyrja spurn­inga og benda á að hert­ar aðgerðir, þar sem viðskipta­lífið er að stór­um hluta lamað, hafi af­leiðing­ar sem nauðsyn­legt sé að ræða. Af­leiðing­ar fyr­ir al­menna heilsu þjóðar­inn­ar en ekki síður fyr­ir vel­ferðar­kerfið allt geti orðið al­var­leg­ar, þar sem hægt og bít­andi er dregið úr sam­eig­in­leg­um þrótti okk­ar (rík­is­sjóði) til að standa und­ir öfl­ugu heil­brigðis­kerfi, mennta­kerfi og al­manna­trygg­ing­um.

Eitr­ar sam­skipti fólks

Dæm­in um dóm­hörk­una eru miklu fleiri. Umb­urðarlyndi hef­ur farið þverr­andi á síðustu árum og þar hef­ur kór­ónu­veir­an ekki leikið hlut­verk. En við Íslend­ing­ar erum ekki ein­ir í glím­unni við óþol gagn­vart þeim sem eru á ann­arri skoðun. Óþol­in­mæði og for­dóm­ar sundra sam­fé­lög­um, eitra sam­skipti fólks og grafa und­an lýðræði.

Lýðræðið hvíl­ir á mörg­um horn­stein­um. Mál­frelsi þar sem ólík­ar skoðanir tak­ast á er einn þess­ara steina. Friðsam­leg stjórn­ar­skipti að lokn­um opn­um og frjáls­um kosn­ing­um er ann­ar horn­steinn.

Í Banda­ríkj­un­um er stöðugt grafið und­an þeim báðum og þannig verður sí­fellt hættu­legra að tapa kosn­ing­um. Á þetta benti John Cochra­ne, hag­fræðing­ur við Hoo­ver-stofn­un­ina við Stan­ford-há­skól­ann og áður pró­fess­or við Há­skól­ann í Chicago, á bloggsíðu sinni í sept­em­ber. Hæfi­leik­inn til að sætta sig við niður­stöðu kosn­inga sé að hverfa, hefðbund­in viðmið í sam­skipt­um hafa verið brot­in niður.

Þegar tæp­ur mánuður er til for­seta­kosn­inga er ástæða til að bera nokk­urn kvíðboga fyr­ir því hvernig brugðist verður við úr­slit­un­um. Sundr­ung sam­fé­lags­ins í Banda­ríkj­un­um birt­ist á hverj­um degi og hef­ur m.a. myndað far­veg fyr­ir nýja teg­und stjórn­mála „rétt­láta ógn­un“ [righteous intim­i­dati­on] – þar sem sam­fé­lög­um er skipt í fórn­ar­lömb og kúg­ara. (Um þetta fjallaði ég hér í grein 9. sept­em­ber sl.). Vand­inn er hins veg­ar djúp­stæðari. Kann­an­ir benda til að sí­fellt fleiri kjós­end­ur – jafnt demó­krat­ar sem re­públi­kan­ar – telji að það geti verið rétt­læt­an­legt að beita of­beldi til að ná fram póli­tísk­um mark­miðum.

Og hvernig má annað vera þegar póli­tísk­ir and­stæðing­ar virða hver ann­ar lít­ils? Árið 2018 leiddi könn­un vef­rits­ins Ax­i­os í ljós að 21% demó­krata taldi re­públi­kana vera illa inn­rætta og 54% sögðu þá fá­fróða. Um 23% re­públi­kana voru á því að demó­krat­ar væru vont fólk og 49% væru fá­vís.

Í sam­eig­in­legri grein sem birt­ist á vef­rit­inu Politico 1. októ­ber lýsa fimm viður­kennd­ir fræðimenn við há­skóla og rann­sókna­stofn­an­ir yfir þung­um áhyggj­um yfir þróun síðustu ára – aukn­um vilja til að rétt­læta of­beldi sem leið til að ná sínu fram í stjórn­mál­um. Í upp­hafi benda þeir á að fram­bjóðandi re­públi­kana (Don­ald Trump) hafi í kapp­ræðum nokkr­um dög­um áður lýst yfir áhyggj­um af of­beldis­öldu sem ríður yfir marg­ar borg­ir Banda­ríkj­anna – of­beldi sem sé runnið und­an rifj­um vinstri manna. For­setafram­bjóðandi demó­krata (Joe Biden) hafði einnig áhyggj­ur – af of­beldi hægriöfga­manna. Báðir fram­bjóðend­urn­ir hafa rétt fyr­ir sér en virðast ekki hafa póli­tíska burði til að tak­ast á við þá hættu sem lýðræðinu staf­ar af of­beld­inu.

Ábyrgð for­ystu­manna í stjórn­mál­um

Kann­an­ir fræðimann­anna sýna að ástæða er til að hafa áhyggj­ur. Fari allt á versta veg standa Banda­rík­in frammi fyr­ir mestu krísu í 150 ár, ekki síst ef úr­slit kosn­ing­anna verða ekki skýr eða ef ann­ar fram­bjóðand­inn dreg­ur niður­stöðu þeirra með ein­hverj­um hætti í efa. Það geti leitt til óeirða og of­beld­is um allt land. Um einn af hverj­um fjór­um demó­kröt­um og re­públi­kön­um seg­ir að það geti verið rétt­mætt ef fram­bjóðandi þeirra tap­ar í kom­andi kosn­ing­um.

Marg­ir telja að þró­un­in í Banda­ríkj­um sam­tím­ans eigi sér hliðstæðu með sögu Evr­ópu á þriðja og fjórða ára­tug liðinn­ar ald­ar. Þá varð hóf­semd­ar­fólk und­ir þegar öfg­ar og of­beldi tóku yfir og tóku öll gildi lýðræðis úr sam­bandi. Af­leiðing­arn­ar þekkja all­ir.

Öllum sem hafa tekið að sér for­ystu í lýðræðis­ríki – í sveit­ar­stjórn­um, stjórn­mála­flokk­um, á þingi og rík­is­stjórn – ber skylda til þess að for­dæma hvers kon­ar of­beldi, jafnt of­beldi póli­tískra and­stæðinga og eig­in stuðnings­manna. Stjórn­mála­menn bera öðrum frem­ur ábyrgð á því að standa vörð um grunn­gildi lýðræðis, ekki síst að all­ir geti tekið þátt í frjáls­um kosn­ing­um og að niður­stöður þeirra séu virt­ar. Fram til þessa hafa for­setafram­bjóðend­ur demó­krata og re­públi­kana ekki skilið eða forðast að axla þessa ábyrgð.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :