Málþóf eða ekki málþóf, það er spurningin

alþingiMálþóf er óaðskiljanlegur hluti þingræðis. Á stundum hefur stjórnarandstaðan ekki önnur vopn til að verjast. Málþóf er vopn sem stjórnarandstaða á hverjum tíma verður að hafa tiltækt til að hafa áhrif á gang mála og koma í veg fyrir að ríkisstjórn og meiri hluti þingsins „valti yfir“ minni hlutann með óbilgirni.

Vopnið er vandmeðfarið og það er auðvelt að misnota það. Oft snýst það í höndunum á þeim sem því beita.

Þegar þetta er skrifað hefur önnur umræða um fjárlög næsta árs staðið yfir í 59 klukkutíma. Sjöundi dagur umræðunnar hófst í gær. Þingmenn hafa aldrei tekið sér jafnlangan tíma í að afgreiða fjárlög.

Stjórnarliðar saka stjórnarandstöðuna um málþóf. Þeim ásökunum er svarað með hverri ræðunni á fætur annarri um fundarstjórn forseta og þar eru stóru orðin ekki alltaf spöruð. Forsætisráðherra er sakaður um að vera „lágkúrulegasti forsætisráðherra sem nokkur tíma hefur vermt þetta sæti“. Formaður fjárlaganefndar þarf að sitja undir stöðugum árásum sem oftar en ekki eru persónulegar. Ráðherrar eru beðnir um að „róa sig“ og sakaðir um dónaskap. Kvartað er undan þrúgandi andrúmslofti og stjórnarliðar eru sagðir ómálefnalegir.

„Nýju vinnubrögðin“

Þeir sem hafa haft tækifæri til að fylgjast með umræðum um fjárlög komandi árs eru best dómbærir á það hvort málþófi sé beitt við afgreiðslu fjárlaga eða ekki. Þeir hafa örugglega tekið eftir því að margir stjórnarandstæðingar hafa flutt ágætar ræður um fjármál ríkisins, þótt ekki sé hægt að taka undir með þeim. En ræðurnar hafa gefið tilefni til rökræðu. En svo eru þeir sem alltaf falla í gryfju pólitísks skæruhernaðar, þar sem málefnið er aukaatriði en persónulegar árásir eru sem rauðir þræðir í öllum málflutningi. Þeir sem hæst tala um ný vinnubrögð, að tekið sé samtal um ólík sjónarmið og skoðanir, ganga harðast fram í svívirðingum gagnvart pólitískum andstæðingum með orðbragði sem aldrei getur rutt brautina að hinum „nýju vinnubrögðum“, hvað svo sem í þeim á að felast. Í sjálfu sér skiptir litlu hvort stjórnarnandstaðan sé í málþófi eða ekki. Það er óskoraður réttur minni hluta að beita málþófi. Allir vita að fjárlög verða afgreidd fyrr eða síðar. Svo lengi sem stjórnarandstaðan telur að það sé pólitískur ávinningur af því að halda ræður um fjárlög og/eða fundarstjórn forseta, verður því haldið áfram. Þingmenn ríkisstjórnarinnar eiga að halla sér aftur í rólegheitum – málþóf um fjárlög skilar litlu – aðeins málþóf um grundvallaratriði skilar ávinningi. Þegar tekist er á um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins þarf oft að verjast. Og þegar ríkisstjórn ætlar sér að þjóðnýta skuldir einkabanka og leggja þær á herðar skattgreiðenda, (jafnvel þá sem eru ófæddir), verður stjórnarandstaðan að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir slík. Þá er málþóf ekki aðeins réttlætanlegt heldur skylda. 

Vilji meiri hluta þingsins

„Það er auðvitað geysilega vel boðið af minni hlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra um fundarstjórn forseta Alþingis 2. desember 2009. Þá var Icesave-samningur á dagskrá þingsins. Stjórnarandstaðan var sökuð um málþóf. Af yfirlæti benti fjármálaráðherrann þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á þeir yrðu að „horfast í augu við þá staðreynd“ að þeir hafi verið kosnir „frá völdum af þjóðinni sl. vor“. Þingmenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar kvörtuðu stöðugt undan málþófi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þingmenn flokkanna voru sakaðir um að reyna að koma í veg fyrir að meiri hluti þingsins næði fram málum. Í stjórnarandstöðu hafa þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hins vegar litlar áhyggjur af því að vilji meiri hluta þingsins nái fram að ganga. Össur Skarphéðinsson er líklega búinn að gleyma orðum sínum 27. nóvember 2009. Þá var hann utanríkisráðherra og lagði allt undir í Icesave-samningunum: 

„Málþóf er tvíeggjað sverð. Menn mega að sjálfsögðu tala eins og þeir vilja. Ég hef alltaf varið rétt stjórnarandstöðunnar til þess, en það er stundum hættulegt og nú er Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur leitt Framsóknarflokkinn inn í málþóf í þessu máli, orðinn hræddur um sína stöðu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn skynjar að hann hefur engan stuðning úti í samfélaginu fyrir því að halda öllum brýnustu fjárlagamálum ríkisstjórnarinnar í gíslingu til að tala sig hásan um Icesave án þess að það komi nokkru sinni neitt nýtt fram í þeim ræðum.  Sjálfstæðisflokkurinn ætti bara að skammast sín til þess að hætta málþófi ef hann er hræddur við sína eigin þátttöku í því.”


Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir samherji Össurar sagði við sama tækifæri:

„Ég mótmæli því að stjórnarandstaðan geti talað þannig að hún geti boðið meiri hluta þingheims þetta eða hitt. Það er þingræði í þessu landi og það er meiri hluti þingheims og vilji hans sem hlýtur að stjórna störfum þingsins.“


Steingrímur J. Sigfússon notaði svipuð rök og Ólína en bætti um betur 2. desember:

„Það er auðvitað geysilega vel boðið af minni hlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála. En það er einu sinni þannig að minni hluti er minni hluti og meiri hluti er meiri hluti. Það er ein af staðreyndum lífsins og þetta verða menn að horfast í augu við. Sjálfstæðisflokkurinn verður m.a. að horfast í augu við þá staðreynd að hann var kosinn frá völdum af þjóðinni sl. vor. Hann var kosinn frá völdum.“

Dýrmætar stundir

Össur Skarphéðinsson var á því að stjórnarandstaðan væri að reyna að skemma fyrir ríkisstjórninni og sagði saman dag: 

„Í annan stað vil ég segja að ég hef hlustað hér á margar ræður. Þetta er skipulagt málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem menn setja á vaktir og eru bara að reyna að tefja tímann og skemma fyrir ríkisstjórninni. Það verða menn að eiga við sjálfa sig. Hér eru mjög fáar málefnalegar ræður fluttar.“


Árni Páll Árnason, sem þá var félagsmálaráðherra, var ekki síður óhress  með stjórnarandstöðuna en Össur og sagði um fundarstjórn forseta:

„Þessi stjórnarandstaða hér er svo smá í sniðum að hún reynir að koma í veg fyrir að meiri hlutinn fái að koma skoðun sinni á framfæri.“


Þegar loks var gengið til atkvæða um Icesave-samninginn [II] 30. desember 2009 – samning sem 98% þjóðarinnar hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnin reyndi að koma í veg fyrir – sá Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ástæðu til að skamma stjórnarandstöðuna. Með málþófi hefðu andstæðingar Icesave „notað 180 dýrmætar stundir þingsins til að berja höfðinu við steininn“.

Líklegast hefur stjórnarandstaða aldrei unnið betur fyrir sínu kaupi en í „málþófi“ gegn Icesave-samningum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Stundirnar 180 eru einhverjar þær dýrmætustu í sögu þjóðarinnar. Og það er munurinn á málþófinu 2009 og því sem nú stendur yfir á Alþingi Íslendinga.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :