Vilji meirihluta kjósenda nær loksins fram

Vilji meirihluta kjósenda nær loksins fram

Undir lok júní 2016 skrifaði ég eftirfarandi í Morgunblaðsgrein:

„Vonir um að embættismenn og Evrópu-elítan bæru gæfu til að draga réttan lærdóm af skilaboðum meirihluta breskra kjósenda virðast því miður ekki ætla að rætast. Valdastéttin í Evrópu er ekki fær um að hlusta. Þegar almenningur segir hingað og ekki lengra; við sættum okkur ekki hrokann frá valdhöfum, við erum á móti aukinni miðstýringu, við viljum fá að ráða meiru um eigin örlög, við viljum endurheimta fullveldi okkar frá embættismönnum í Brussel sem enginn hefur kosið, hristir elítan hausinn. Vísað er til fávísi og menntunarleysis almúgans sem elítan er sannfærð um að geti ekki tekið skynsamlega ákvörðun um framtíðina.“

Tilefni ofangreindra orða var niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að ganga úr Evrópusambandinu. Almenningur gekk á hólm við fjölmiðla, áhrifamikla álitsgjafa og stjórnmálamenn. David Cameron, þá forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, barðist fyrir áframhaldandi aðild en hann mislas kjósendur herfilega og sagði af sér sem forsætisráðherra.

Yfirlæti og hroki

Viðbrögð embættismanna Evrópusambandsins, fjölmiðlamanna og fjölda sérfræðinga í Evrópu og Bretlandi, en ekki síður hér á Íslandi, voru ekki aðeins ótrúleg heldur nöturlegur vitnisburður um viðhorf valdastétta til almennings. Elítan getur illa sætt sig við að ná ekki sínu fram.

Íslenskir Evrópusinnar töluðu af yfirlæti. Bretar voru sagðir íhaldssamir, gamaldags og staðnaðir. Því var haldið fram að það hefði verið fyrst og fremst fólk með litla menntun sem studdi Brexit. Hinir menntuðu – sem vita best – væru á móti úrsögn. Hið sama ætti við um unga fólkið sem hefði verið á móti úrsögn – það hefði kosið með framtíðinni, en þeir eldri tekið völdin og ákveðið dökka framtíðina fyrir þá yngri.

Í Bretlandi var hrokinn gagnvart kjósendum grímulaus og þingmaður Verkamannaflokksins krafðist þess að þingið hundsaði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Jafnvel innan Íhaldsflokksins voru þingmenn sem töldu ekkert rangt – hvorki siðferðilega né lagalega – við að vilji meirihluta kjósenda yrði virtur að vettugi. Í rúm þrjú ár var öllum brögðum beitt til að koma í veg fyrir að vilji meirihluta kjósenda næði fram að ganga. Kosningasigur Íhaldsflokksins, undir forystu Boris Johnson forsætisráðherra, í desember var hins vegar rothöggið sem þurfi til að binda enda á klækjastjórnmál þeirra sem vildu ekki hlíta ákvörðun meirihluta breskra kjósenda.

Grunnurinn að mesta kosningasigri Íhaldsflokksins frá 1987, þegar Margaret Thatcher leiddi flokkinn, var árangur hans í Norður-Englandi, einföld og skýr skilaboð og trúverðugleiki. Boris Johnson hefur gengið hratt og örugglega til verka sem forsætisráðherra. Bretar ganga úr Evrópusambandinu í lok vikunnar. Svokallaðan aðlögunartíma fram að áramótum á að nýta til að semja um samskipti Evrópusambandsins og Bretlands. Og það verður reynt að leggja steina í götu slíkra samninga. Elítan er þegar byrjuð að tína steinana til.

Úrslit þingkosninganna í desember og ekki síður niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016 þar sem Brexit var samþykkt, bendir til að breskur almenningur sé að brjótast undan elítunni – sé hættur að taka mark á sérfræðingum og fjölmiðlum. Þetta er ekki ósvipað og gerðist hér á Íslandi í tvígang þegar mikill meirihluti Íslendinga hafnaði Icesave-samningunum. Sérfræðingar, álitsgjafar og ráðherrar boðuðu efnahagslegar hamfarir og einangrun landsins, ef íslenskir skattgreiðendur öxluðu ekki skuldir einkabanka. Kjósendur tóku sjálfstæða ákvörðun sem reynst hefur gæfurík.

Mikilvægt viðskiptaland

Þótt slest hafi upp á vinskapinn endrum og sinnum eru Bretar ein nánasta vinaþjóð okkar Íslendinga og samstarfsaðili í varnarbandalagi vestrænna þjóða – Nató. Bretland er eitt okkar mikilvægasta viðskiptaland.

Um 10% af heildarvöruútflutningi okkar fara til Bretlands og 15,3% af sjávarafurðum. Þetta eru um 59 milljarðar á ári í vöruútflutning, en þjónustutekjur okkar frá Bretum eru líka gríðarlegar, um 83 milljarðar eða tæplega 12% af útflutningstekjum okkar af þjónustu í heild. Því skiptir það okkur gríðarlega miklu máli að það takist að ganga frá fríverslunarsamningi við Bretland sem tryggi hagsmuni, ekki bara okkar á Bretlandi heldur líka breskra aðila sem eiga viðskipti við okkur á Íslandi.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um stöðuna gagnvart Bretlandi vegna Brexit í nóvember 2018 sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra meðal annars:

„Við viljum ekki sjá verri viðskiptakjör en við höfum núna. Helst vildum við sjá betra og nánara samstarf.“

Markmið ráðherrans er skýrt enda hefur hagsmunagæsla vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verið forgangsmál frá því að hann tók við embætti. Í blaðagrein í síðustu viku benti Guðlaugur Þór á að huga hefði þurft að mörgu „sérstaklega ef Bretar og ESB næðu ekki samningi. Okkur tókst að tryggja lykilhagsmuni Íslands óháð því hvort útgangan hefði orðið með eða án samnings. Í viðræðunum sem nú fara í hönd byggjum við á þeim trausta grunni sem þá var lagður.“

Raunar geta tækifæri legið í nánari samvinnu við Bretland á komandi árum. Ég hef lengi látið mig dreyma um að myndað verði fríverslunarsvæði í norðurhöfum; Bretland, Bandaríkin, Kanada, Grænland, Færeyjar, Noregur og Ísland. Með fríverslunarsamningi landanna yrði til markaður um 430 milljóna manna og lagður grunnur að einu mesta hagvaxtarsvæði heims.

Fríverslun í Norðurhöfum gæti orðið jafn styrk stoð undir efnahag og lífskjör okkar Íslendinga til framtíðar og EES-samningurinn. Hugmyndin er hins vegar eitur í beinum Evrópusinna eins og kom ágætlega í ljós í umræðum á þingi í október síðastliðnum. Íslenska elítan sem sækir andlegt fóður sitt til Brussel gerir sér ágætlega grein fyrir að með sama hætti og EES-samningurinn er steinn í götunni til Brussel yrði fríverslun í norðurhöfum það einnig. Og það bendir til að hugmyndin sé nokkuð góð.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :