Menntun – raunverulegt tæki til jöfnuðar

Okkur Íslendinga greinir á um margt, stórt og smátt. En við erum flest ef ekki öll samstiga í að tryggja öllum jöfn tækifæri til menntunar, óháð efnahag og búsetu. Í einfaldleika sínum má segja að litið sé á menntakerfið með svipuðum hætti og heilbrigðiskerfið. Við viljum standa sameiginlega að fjármögnun þjónustunnar. Ágreiningurinn snýr fremur að því hvernig veita eigi þjónustuna, hvort og þá með hvaða hætti samþætta eigi rekstur á vegum opinberra aðila og einkaaðila.

Í sjálfu sér er það rannsóknarefni að enn skuli rifist um verkaskiptingu hins opinbera og einkafyrirtækja, hvort heldur á sviði heilbrigðisþjónustu eða menntunar. Íslensk heilbrigðisþjónusta kemst ekki af án einkarekstrar. Íslenskt menntakerfi er blómlegra og öflugra vegna sjálfstætt starfandi skóla – Ísaksskóli, Hjallastefnan, Verslunarskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Fyrir þann sem hér skrifar hefur það valdið vonbrigðum hversu illa hefur tekist að innleiða með skipulegum hætti samkeppni um þjónustu sem við höfum tekið ákvörðun um að standa sameiginlega undir. Of margir eiga erfitt með að gera greinarmun á því hver veitir þjónustuna og hver greiðir fyrir hana. Ég hef oftar en einu sinni bent á að skynsamlegt sé fyrir þann sem greiðir (hið opinbera) að efna til samkeppni milli þeirra sem hafa áhuga á að veita þjónustuna, hvort heldur um er að ræða heilbrigðisþjónustu eða rekstur menntastofnana. Slík samkeppni tryggir að öðru jöfnu lægra verð. Og fátt er betra fyrir þann sem nýtir sér þjónustuna en að keppt sé um viðskiptin – að fleiri en einn og fleiri en tveir berjist um að fá viðkomandi í viðskipti. Þjónustan verður betri og nær því að uppfylla þær þarfir sem fyrir hendi eru.

Að njóta hæfileika sinna

Birgir Kjaran [1916- 1976], þingmaður, rithöfundur og hagfræðingur, hélt því fram að æðsta takmark samfélags væri að veita „einstaklingunum allt það frelsi, sem þeir þarfnast til þess að fá að fullu notið hæfileika sinna og mannkosta“. Viðhorf Birgis fangar vel þá hugsun sem liggur að baki sjálfstæðisstefnunni og einstaklingsfrelsinu. Það er því ekki tilviljun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alla tíð lagt áherslu á menntamál. „Góð menntun er grundvallarforsenda jafnra tækifæra og lykill að lífsgæðum einstaklinga, opnu samfélagi og er forsenda öflugs atvinnulífs og samkeppnishæfni,“ sagði m.a. í ályktun landsfundar á liðnu ári.

Varla deilir nokkur um þá staðhæfingu landsfundarfulltrúa að hagvöxtur, bætt lífskjör og samkeppnishæfni Íslands byggjast á menntun og vísindastarfi. Þess vegna er menntakerfið og skipulag þess ekki einkamál fáeinna útvalinna embættismanna eða innmúraðra sérfræðinga. Menntun er eitt mikilvægasta viðfangsefni alls samfélagsins – sameiginlegt verkefni nemenda, foreldra, kennara, launafólks og fyrirtækja, kjörinna fulltrúa og embættismanna.

Það er sérstakt fagnaðarefni að Samtök atvinnulífsins [SA] taki af skarið með ítarlegri skýrslu og tillögum um skipan menntakerfisins; Menntun og færni við hæfi. Ekki er við því að búast að allir takir undir með SA en það er rétt sem Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður samtakanna, bendir á í ávarpi að ein af „stærstu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í íslensku menntakerfi í dag er hvernig þróa þarf hlutverk skólakerfis og atvinnulífs við að búa fólk undir tæknibreytingar sem eru oft kenndar við fjórðu iðnbyltinguna“.

SA benda á að menntun auki færni starfsfólks, ýti undir verðmætasköpun og bæti þar með lífskjör allra. „Þetta á sérstaklega við á Íslandi enda er hlutur launafólks í verðmætasköpun samfélagsins hvergi hærri, eða 62%. Þetta hlutfall er til dæmis 55% í Noregi og 56% í Finnlandi.“

Spurning um lífskjör

Skýrsla og tillögur SA grundvallast á eftirfarandi fullyrðingu: „Menntun hvers einstaklings er ekki aðeins mikilvæg fyrir hann sjálfan heldur fyrir lífskjör okkar allra.“

Með hliðsjón af eftirfarandi staðreyndum vilja Samtök atvinnulífsins stytta grunnskólann um eitt ár:

  • Ísland ver hærra hlutfalli landsframleiðslu til grunnskóla en nokkurt annað þróað ríki, eða 2,33%.
  • Ísland er í 39. sæti á PISA.
  • Þýskaland ver 0,65% af þjóðarframleiðslu til grunnskólans og er í 16. sæti PISA.
  • Íslenskir grunnskólanemendur eru í skóla 180 daga á ári en utan skóla í 185 daga.

SA fullyrða að tækifæri séu til þess að stytta grunnskólagöngu íslenskra nemenda en á sama tíma auka gæði námsins, með fjölgun kennsludaga um 17 á ári. Sumarfríið sem nú er um 10,5 vikur verði sjö vikur. „Mjög löng sumarfrí, eins og þau sem tíðkast hér á landi, hafa slæm áhrif á námsárangur barna, sérstaklega þeirra sem eiga foreldra með lægri tekjur eða erlent móðurmál,“ segir í skýrslunni.

SA ganga út frá því að framlög til grunnskólans lækki ekki þrátt fyrir styttingu námsins:

  • Framlag á hvern nemanda hækkar um 10%, eða um 182 þúsund krónur á ári.
  • Hægt er að hækka laun kennara umtalsvert án aukins kostnaðar.

Rétt er að viðurkenna að þegar tekin var ákvörðun um styttingu framhaldsskólans var ég fullur efasemda enda væru þar að baki veikburða rök. Þótt enn sé of snemmt að dæma um árangurinn er ýmislegt sem bendir til að breytingin hafi verið skynsamleg.

Stytting náms getur hins vegar ekki verið sjálfstætt markmið. Aðalatriðið – það sem öllu skiptir – er að tryggja gæði náms og fjölbreytileika þannig að nemendur geti ræktað hæfileika sína og áhuga. Um leið má í engu hvika frá því markmiði að menntakerfið byggi á jafnrétti, þar sem nemendum er boðið nám og kennsla við hæfi og þeir eigi kost á að spreyta sig á viðfangsefnum sem hugur þeirra og geta stendur til.

Öflugasta tæki samfélagsins

Samtök atvinnulífsins rökstyðja styttingu grunnskólans og fullyrða að með auknu framlagi á hvern nemanda sé hægt að auka gæði námsins og styrkja stöðu kennara. Rökin eru sterk. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að grunnskólar eru í samkeppni um gott starfsfólk við aðra vinnustaði: „Ef ekki er hægt að bjóða samkeppnishæft starfsumhverfi og laun, þá verða grunnskólarnir undir í þeirri samkeppni.“

Skýrsla SA snýr ekki aðeins að grunnskólanum heldur einnig að öðrum skólastigum. Sameiningu háskóla, eflingu iðn- og tæknináms. Hér eru ekki tök á að fara yfir þá hluta skýrslunnar en þó verður ekki hjá því komist að vekja athygli á tillögu – stefnu SA þegar kemur að leikskólum:

„Í samfélagi jafnra tækifæra ættu foreldrar að geta valið hvernig þau haga fjarveru frá vinnumarkaði vegna barneigna og því þarf að tryggja að úrræði séu til staðar frá þeim tíma er fæðingarorlofi lýkur. Það stuðlar að jafnari launum kynjanna, eykur hlut kvenna í stjórnunarstöðum og gerir þeim kleift að sækja fram á fleiri sviðum.“

Jafnrétti til náms er ekki aðeins þjóðhagslega skynsamlegt – arðvænlegt efnahagslega og félagslega. Menntun er öflugasta tæki samfélagsins til að stuðla að jöfnuði og gefa ungu fólki tækifæri. Við Íslendingar getum haldið áfram að rífast um skatta og gjöld, skipulag eftirlitsiðnaðarins, ríkisrekstur fjölmiðla, áfengi í búðir og rammaáætlanir. Ágreiningsefnin er fjölmörg. En við hljótum að ná saman um að nýta öflugasta jöfnunartækið – menntakerfið – til hagsbóta fyrir alla óháð efnahag eða búsetu. Ekki síst vegna þessa er skýrsla Samtaka atvinnulífsins mikilvægt framlag.

Share