Hvað er ríkið alltaf að vasast?

Hvað er ríkið alltaf að vasast?

Engu er líkara en að við Íslendingar séum búnir að missa sjónar af hlutverki ríkisins, markmiðum, skyldum og verkefnum þess. Afleiðingin er sú að ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki eru stöðugt að vasast í hlutum og verkefnum, sem þau eiga ekki að koma nálagt og það sem verra er; skipulega er sótt að einstaklingum og einkafyrirtækjum í skjóli ríkisrekstrar.

Í orði hefur löggjafinn reynt að koma málum þannig fyrir að leikreglur á samkeppnismarkaði séu skýrar, gagnsæjar og stuðli að jafnri og heiðarlegri samkeppni. Í reynd blasir önnur mynd við. Samkeppnishindrunum hefur verið komið upp. Regluverkið hyglar fremur þeim stóru í stað þess að tryggja samkeppni, stöðu lítilla fyrirtækja og hagsmuni neytenda. Undan verndarvæng ríkisins herja ríkisfyrirtæki á einkafyrirtæki í viðleitni sinni til að vinna nýja markaði og afla sér aukinna tekna.

Sjúkleiki viðskiptalífsins

Afleiðingin er sú að hægt og bítandi verður íslenskt viðskiptalíf sjúkt með svipuðum hætti og fyrir hrun viðskiptabankanna. Þá var engu líkara en að stórfyrirtæki hefðu ótakmarkaðan aðgang að láns- og áhættufé, frá bönkum, lífeyrissjóðum og öðrum stofnanafjárfestum. Með skuldsetningu og auknu eiginfé urðu til fyrirtækjasamsteypur og stórfyrirtæki sem tókst að kæfa keppinauta og ná ráðandi stöðu á markaði – keyptu eða ruddu keppinautum úr vegi.

Eftir hrun fjármálakerfisins var skuldugum stórfyrirtækjum komið í öndunarvélar, þeim bjargað og þannig var óhófleg skuldsetning verðlaunuð. Sjálfstæðu atvinnurekendurnir, sem höfðu sýnt skynsemi og hófsemd í rekstri, sátu eftir með sárt ennið – búnir að missa markaðshlutdeild í ójafnri samkeppni fyrir hrun og í enn verri stöðu að því loknu þar sem stór hluti skulda keppninautanna var afskrifaður. Til að bíta höfuðið af skömminni voru hófsemdarmenn í atvinnurekstri látnir greiða enn hærri skatta en áður, ýmis gjöld hækkuð, regluverk gert flóknara og eftirlit með starfsemi þeirra aukið með tilheyrandi kostnaði.

Ríkið herðir sóknina

Enn eiga sjálfstæðir atvinnurekendur í vök að verjast. Nú eru það ekki aðeins stórfyrirtækin, með nýja og glæsilega efnahagsreikninga, sem sækja að þeim. Ríkisfyrirtæki eru að herða sóknina og þrengja að einkarekstri með skipulegum hætti. Í humátt á eftir koma eftirlitsstofnanir sem leita sér að verkefnum til þess að afla sér tekna sem aftur eiga að standa undir stórum hluta rekstrar viðkomandi stofnunar. Fyrirtæki og neytendur standa undir ásókn eftirlitsiðnaðarins, í formi verri afkomu og hærra vöruverðs.

Ég hef áður fært rök fyrir því að ohf-væðing ríkisfyrirtækja hafi verið tilraun sem mistókst en því miður bendir fátt til þess að löggjafinn ætli að læra.

Ohf-ríkisfyrirtæki starfa með svipuðum hætti og önnur hlutafélög en njóta um leið margvíslegrar verndar og sérréttinda eins og Ríkisútvarpið er ágætt dæmi um. Engum þarf að koma á óvart að ríkisfyrirtækin leiti sér að nýjum leiðum til að efla tekjustreymi, auka þjónustuna, styrkja efnahaginn og reksturinn almennt. Það er beinlínis ætlast til þess af stjórnendum fyrirtækjanna að þeir standi þannig að rekstrinum að hann standi undir sér og skili arði til eiganda síns með einum eða öðrum hætti.

Löggjafinn hefur hannað umgjörðina með þeim hætti að ohf-fyrirtækin eru líkari lokuðum einkafyrirtækjum en hefðbundnum ríkisfyrirtækjum, í endalausri viðleiðni við að ná nýjum viðskiptavinum og auka umsvif sín. Í skjóli eignarhalds er sótt inn á samkeppnismarkaði og lagt til atlögu við einkafyrirtæki – lítil og stór.

Sendlaþjónusta ríkisins

Íslandspóstur er ríkisfyrirtæki sem starfar undir hatti opinbers hlutafélags. Fyrir nokkrum árum haslaði fyrirtækið sér völl á prentmarkaði með kaupum á einkafyrirtæki. Þannig fór ríkið í samkeppni við prentsmiðjur um allt land. En Íslandspóstur hefur ekki látið þar við sitja.

Ríkisfyrirtækið hefur ákveðið að leggja til atlögu við leigubílstjóra, sendibílastöðvar og einyrkja með því að bjóða upp á sendlaþjónustu, sem þessir aðilar hafa sinnt samhliða öðrum verkefnum. Ungt fólk hefur margt stigið sín fyrstu skref sem sendlar á sumrin og meðfram skóla en Íslandspóstur mun ýta þeim út af vinnumarkaðinum. Með svipuðum hætti hefur Íslandspóstur ákveðið að bjóða fyrirtækjum að annast fyrir þau alla vörudreifingu, aftur í samkeppni við litla sjálfstæða atvinnurekendur. Brettaflutningar eru hluti af þjónustunni, sem og vöruhýsing með tollafgreiðslu og geymslu á öllum lager.

Engan skal undra að ég haldi því fram að við Íslendingar séum búnir að missa sjónar af því hvert sé hlutverk ríkisins. Brettaþjónusta? Vöruhýsing? Sendlaþjónusta? Vörudreifing? Prentþjónusta?

Undirfataverslun ríkisins

Þetta eru langt í frá að vera einu verkefnin sem ríkið hefur tekið að sér. Ríkið er stærsti smásali snyrtivara á Íslandi í gegnum Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli – dótturfyrirtæki Isavia ohf. Sala á sælgæti er orðin hluti af ríkisrekstri sem og leikfangasala. Ríkið hefur tekið að sér að selja þekktan undirfatnað kvenna og heilsuvörur. Allt er þetta í samkeppni við einkareknar verslanir sem ólíkt Fríhöfninni þurfa að standa skil á virðisaukaskatti og tollum. Til að kóróna þetta allt eru komufarþegar og þá erlendir ferðamenn sérstaklega hvattir til að gera innkaupin í Fríhöfninni þar sem verðið sé allt að 50% lægra en „borgarverðið“. Íslendingum er svo sérstaklega boðið að gera innkaupin í gegnum vefverslun ríkisins.

Nú er spurt:

Hvenær, hvernig og hverjir tóku þá ákvörðun að eitt af hlutverkum ríkisins væri að selja snyrtivörur, leikföng, undirfatnað og heilsuvörur? Getur verið að löggjafinn (eða a.m.k. meirihluti hans)  sé á því að svo skuli hlutirnir vera?

Með velvilja stjórnvalda?

Hægt og bítandi hafa flestar takmarkanir á rekstri ríkisfyrirtækja verið afnumdar. Stjórnvöld virðast líta með velvilja á að ríkisfyrirtæki sæki inn á verksvið einkafyrirtækja. Þannig er grafið undan einkaframtakinu og ríkisrekstur tekur við.

Framtíðarsýnin sem blasir við er ekki beint fögur.

Framtaksmenn munu alltaf eiga það á hættu að ríkisfyrirtæki – hvort heldur það er ohf-vætt eða ekki – ryðjist inn á samkeppnismarkaðinn, dragi úr möguleikum þeirra og þar með arðsemi. Við slíkar aðstæður er lítill hvati fyrir einstaklinga að setja allt sitt undir í sjálfstæðum fyrirtækjarekstri. Miklu skynsamlegra er að fá vinnu hjá hinu opinbera.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :