Forðast ungt fólk Sjálfstæðisflokkinn?

Fyrir áratug var pólitísk framtíð Sjálfstæðisflokksins björt. Yfir 44% kjósenda á aldrinum 18 til 39 ára studdu flokkinn á landinu öllu. Með réttu gerði Sjálfstæðisflokkurinn tilkall til þess að vera kallaður flokkur unga fólksins – stjórnmálaflokkur framtíðarinnar.

Um 1.500 helstu forystu- og trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins, sem koma saman til landsfundar eftir liðlega viku þurfa að horast í augu við gjörbreytta stöðu. Ungt fólk telur sig ekki lengur eiga samleið með flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn berst við að halda fylginu yfir 15% meðal ungs fólks. Í Reykjavík er staðan sérstaklega slæm.  Þannig benda skoðanakannanir til að aðeins 6-7% kjósenda á aldrinum 18-24 ára í vesturhluta borgarinnar styðji Sjálfstæðisflokkinn. Staðan er lítillega skárri í austurhlutanum. Meðaltal skoðanakannana Gallup í maí til júlí á þessu ári benda til að í heild sé fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal kjósenda 18-44 ára í Reykjavík á bilinu 13-17%. Staða hefur ekki batnað á síðustu mánuðum. 

Að ná eyrum ungs fólks

Veik staða Sjálfstæðisflokksins meðal ungs fólk er ekki bundin við Reykjavík. En þar er staðan, jafnt hlutfallslega og sögulega, verri en í öðrum sveitarfélögum og kjördæmum. Það er illmögulegt ef ekki útilokað fyrir Sjálfstæðisflokkinn að endurheimta fyrri pólitískan styrk án fylgis í höfuðborginni þar sem liðlega 37% landsmanna búa. Og pólitískri fótfestu verður ekki náð í Reykjavík án stuðnings ungs fólks en um 52% reykvískra kjósenda eru yngri en 45 ára.

Það er andspænis þessum veruleika sem landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins koma saman og móta stefnu flokksins og leggja línurnar sem þeir vilja að endurspeglist í málflutningi og störfum kjörinna fulltrúa jafnt á Alþingi sem sveitarstjórnum. Ætli sjálfstæðismenn að ná eyrum og stuðningi ungs fólks verða landsfundarfulltrúar ekki aðeins að hlusta á sjónarmið þess, heldur gefa því tækifæri til að móta stefnu flokksins til framtíðar.

Það hefur aldrei reynst Sjálfstæðisflokknum illa að leiða ungt hugsjónafólk til áhrifa.

Hugsjónir sem lögðu grunninn

Á landsfundi í maí 1973 var sérstaklega rætt um dreifingu valds í þjóðfélaginu, eflingu frjálshyggju og atvinnuveganna og hlutverk Sjálfstæðisflokksins. Ungir sjálfstæðismenn fóru þar fremstir í flokki og fluttu erindi á fundinum um hugsjónir og Sjálfstæðisflokkinn. Jón Steinar Gunnlaugsson, síðar hæstaréttadómari flutti þar meðal annars erindi og lagði línurnar um opna stjórnsýslu og aðgengi að upplýsingum, löngu áður en það komst í tísku:

„Þýðingarmikið er, að almenningur í landinu eigi sem greiðastan aðgang að upplýsingum um stjórnarframkvæmdina, hver ákvörðun taki og hverra sjónarmiða sé gætt við ákvarðanatökuna. Í lýðræðislegu þjóðfélagi heyrir það skipulaginu til, að kjósendur kalli handhafa ríkisvaldsins með vissu millibili til ábyrgðar á meðferð þess, og er því nauðsynlegt, að kjósendur fái greiðar upplýsingar um starfsemi stjórnvalda og ríkisstofnana. Þess háttar upplýsingar eru auk þess til þess fallnar að veita þessum aðilum aðhald við stjórnsýsluna.“

Það voru ekki síst hugmyndir af þessu tagi – um valddreifingu, opna stjórnsýslu og upplýsingafrelsi sem lögðu grunninn að sókn Sjálfstæðisflokksins meðal ungs fólks á áttunda áratug síðustu aldar og tryggði yfirburðastöðu í upphafi nýrrar aldar. Hér skal það fullyrt að sömu hugsjónir skipta ungt fólk jafn miklu máli nú og fyrir liðlega fjórum áratugum.

Það þarf ekki að ræða lengi við þá sem yngri eru til að komast að því að húsnæðismál brenna á þeim. Ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, margt skuldum vafið vegna námslána, sér ekki að það eigi raunhæfa möguleika á að eignast eigið húsnæði – öðlast fjárhagslegt sjálfstæði í náinni framtíð. Það horfir á hvernig milljarðatugum hefur verið skóflað úr ríkissjóði á síðustu árum í formi niðurgreiðslu vaxta  en sér ekki hvernig það getur nokkurn tíma notið slíkrar aðstoðar. Ill mögulegt er fyrir ungt fólk að sleppa í gegnum greiðslumat – nálarauga forræðishyggjunnar og þar með er búið að taka valfrelsið í húnsæðismálum frá þeim. Lausn stjórnmálamanna er að byggja félagslegt leiguhúsnæði.

Ungt fólk sem á sér þann draum að verða fjárhagslega sjálfstætt mun fylgjast vel með hvaða stefnu landsfundur Sjálfstæðisflokkurinn markar í húsnæðismálum. Alveg með sama hætti og margir munu gefa gaum að því hvort Sjálfstæðisflokkurinn tekur af skarið með því að hverfa frá refsistefnu í fíkniefnamálum og veita fíklum skjól innan heilbrigðiskerfisins. Og ungt fólk – sérstaklega ungir karlar – tekur eftir því ef landsfundur Sjálfstæðisflokksins mótar skýra stefnu í geðheilbrigðismálum.

Málin eru miklu fleiri. Allt frá menntamálum til atvinnumála, frá námslánum til skatta, frá menningu til umhverfismála. Tækifæri og valfrelsi er rauði þráðurinn..

Án æsku er engin framtíð

Í nýjasta hefti Þjóðmála er fjallað sérstaklega um stöðu Sjálfstæðisflokksins og þá ekki síst meðal yngri kjósenda. Ingvar Smári Birgisson, fyrrverandi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, bendir á hið augljósa:

„Flokkur án æsku er flokkur án framtíðar“.

Í grein sinni færir Ingvar Smári rök fyrir því að stærsti vandi Sjálfstæðisflokksins sé ímyndarvandi:

„Flokkurinn virkar stofnanalegur og gamaldags á ungt fólk. Stjórnmálamenn flokksins eru margir stirðlamalegir og gefa ungu fólki fáar ástæður til að fyllast eldmóði. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki trúverðugur. Alls staðar á Vesturlöndum eru kjósendur, þá sérstaklega ungt fólk, að hafna atvinnustjórnmálamönnum sem láta spunameistara skrifa ræðurnar og kosningaloforðin fyrir sig með það að markmiði að veiða atkvæði. Kallað er eftir stjórnmálamönnum sem standa fyrir eitthvað meira en eigin pólitíska frama.“

Líklega finnst mörgum eldri sjálfstæðismönnum gagnrýni fyrrverandi formanns Heimdallar vera óvægin og jafnvel ósanngjörn. En ætli Sjálfstæðisflokkurinn að ná fyrri stöðu meðal ungs fólks verður ekki undan því vikist að ræða ábendingar, aðfinnslur og gagnrýni. Tækifæri til þess er meðal annars á landsfundi síðar í þessum mánuði. Þar hlýtur spurningin um hvort ungt fólk forðist Sjálfstæðisflokkinn að vera áleitinn. Svarið liggur í augum uppi en fyrir marga þá sem eru eldri, kann að vera erfiðara að átta sig á hvers vegna. En þar geta ungir landsfundarfulltrúar hjálpað til ef við hin eldri erum reiðubúin til að hlusta.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :