Dagskrárvald á landsfundi

Ég hlakka til að mæta á landsfund Sjálfstæðisflokksins sem hefst næstkomandi föstudag enda með þá von í brjósti að þar verði tekist á um einstök mál af festu, jafnvel hörku en af hreinskilni. Ekkert er leiðinlegra í starfi stjórnmálaflokks en lognmolla og hugsjónaleysi. Stjórnmálaflokkur sem forðast átök, umræður, fjölbreyttar skoðanir og nýjar hugmyndir, er ekki líklegur til stórræða.

Þau eru mörg málin – lítil og stór – sem fulltrúar á landsfundi þurfa að ræða og taka afstöðu til og með því varða veginn fyrir þingmenn og ráðherra flokksins fram að næstu kosningum vorið 2017. Fela þeim ákveðin verkefni til að leysa – hrinda hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar í framkvæmd. Um komandi helgi eru það því landsfundarfulltrúar – bakbein Sjálfstæðisflokksins um allt land – sem hafa dagskrárvaldið. Hvorki ráðherrar né þingmenn setja þeim fyrir eða taka „óþægileg mál“ af dagskrá eða út úr ályktunum fundarins. Aflátsbréf verða ekki gefin út en kjörnir fulltrúar á þingi og í sveitarstjórnum fá enn eina staðfestingu á því að baklandið er traust þegar vel er unnið.

Móta og skerpa stefnuna

Fyrir landsfundinum liggja drög að ályktunum í átta málaflokkum en auk þess verður uppkast að stjórnmálaályktun lagt fram til umræðu, breytinga og samþykktar. Líkt og alltaf er ýmislegt í drögunum sem sá er hér skrifar er ekki sáttur við – of skammt er gengið í sumu, í öðru of langt og svo er annað sem ekki er nefnt. Ég hygg að svipað eigi við um flesta landsfundarfulltrúa. Þeir eru komnir til fundar til að móta og skerpa stefnuna og til þess þurfa þeir að takast á með gagnrýnum hætti og mynda farveg fyrir samkeppni hugmynda og skoðana.

Ekki kæmi t.d. á óvart að tekist verði á um stofnun Stjórnstöðvar ferðamála sem er fagnað í drögum atvinnuveganefndar. Það er eitthvað sérkennilegt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins gleðjist yfir nýrri stofnun og skiptir engu hvort hún er í samvinnu við atvinnulífið eða ekki. Með sama hætti er eitthvað öfugsnúið við að Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér fyrir nýrri ríkisstofnun – efnahagsráði – líkt og efnahags- og viðskiptanefnd leggur til. Það væri fremur í takt við gunnstef sjálfstæðisstefnunnar að gagnrýna flókið stjórn- og eftirlitskerfi og undirstrika nauðsyn þess að stokka það allt upp, einfalda og fækka stofnunum. Með sama hætti væri ekki úr vegi að landsfundur lýsti því yfir að tilraun til að ohf-væða ríkisfyrirtæki hafi mistekist og um leið ítreka nauðsyn þess að ríkisfyrirtæki í samkeppnisrekstri verði seld.

Styttra nám og Byggðastofnun

Í ályktunardrögum umhverfis- og samgöngunefndar segir:

„Styrkja skal starf Byggðastofnunar …“

Ekki verður því trúað að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að boða aukin ríkisumsvif með lánveitingum og áhættufjárfestingum. Jafnvel fyrir Skagfirðing er erfitt að trúa að sjálfstæðismenn telji í einlægni að það sé árangursrík að efla atvinnulífið í gegnum opinbera fjárfestinga- og lánasjóði.

„Skoða má annars konar fjármögnun samgöngumannvirkja en bein framlög af fjárlögum,“ segir einnig í drögum umhverfis- og samgöngunefndar. Undir þetta er tekið en best er að ganga hreint til verks og hvetja til þess að einkaaðilum verði gert kleift að koma að fjármögnun og uppbyggingu innviða hvort heldur er í samgöngum eða á öðrum sviðum.

Allsherjar- og menntamálanefnd tekur hraustlega til orða í sínum drögum:

„Styttingu náms fylgir mikil þjóðhagslegur ávinningur og fjölga þarf þeim sem ljúka námi á tilsettum tíma.“

Í besta falli er fullyrðing um þjóðhagslegan ávinning af styttingu náms umdeilanleg enda á eftir að koma í ljós hvort gæði menntunar haldist og hvort og þá hvernig háskólar þurfa að bregðast við. Stytting náms getur aldrei verið aðalatriðið heldur gæði þess og fjölbreytileiki sem tryggir nemendum raunverulegt val þannig að þeir geti nýtt hæfileika sína. Það færi betur á því að Sjálfstæðisflokkurinn legði áherslu á að auka gæði menntunar og valfrelsi nemenda um leið og sjálfstæði skóla er aukið.

Skjaldborg um Ríkisútvarpið?

Það yrðu vonbrigði ef landsfundur samþykkti tillögu allsherjar- og menntamálanefndar um fjölmiðla en þar segir:

„Fjölmiðlun er afar mikilvæg í lýðræðisþjóðfélagi og einkareknir fjölmiðlar þurfa að hafa burði og jafnræði til að sinna mikilvægu hlutverki í samkeppni við Ríkisútvarpið. Mikilvægt er að varðveita menningararf þann sem Ríkisútvarpið ohf. hefur umsjón með og gera efni í eigu stofnunarinnar aðgengilegt almenningi.

Á sama tíma og hefðbundið línulegt sjónvarp og prentmiðlar hafa gefið eftir hafa miðlar, efnisveitur og rafræn dreifing efnis gjörbreytt áhorfsvenjum ekki síst hjá ungu fólki.  Skilgreina þarf því upp á nýtt dagskrárgerð og fjárveitingar ríkisins til slíkra verkefna og hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að njóta styrkja hins opinbera. Endurskoða þarf því lög  um Ríkisútvarpið og hlutverk þess í takt við nýjan veruleika.“

Drög allsherjar- og menntamálanefndar verða því miður ekki skilin með öðrum hætti en reyna eigi að slá skjaldborg um Ríkisútvarpið. Að minnsta kosti er tónninn annar en á ályktun landsfundar 2013 þar sem sagði:

„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna.“

Eftir því sem best er vitað hefur endurskilgreining á „þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil“ ekki farið fram, tæpum þremur árum eftir að landsfundur taldi það nauðsynlegt. Ástæðan er óljós. En krónísk fjárhags- og rekstrarvandræði Ríkisútvarpsins (sem er opinbert hlutafélag) varð til þess að mennta- og menningarmálaráðherra skipaði þriggja manna óháðan starfshóp fyrr á þessu ári til að greina fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Sá er þetta ritar hefur upplýsingar um að skýrsla starfshópsins sé tilbúin og hafi verið afhent fyrir mörgum vikum. Af einhverjum ástæðum hefur skýrslan ekki verið birt. Það er sérkennilegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að almenningur fái ekki aðgang að skýrslu um fjárhagslega stöðu fyrirtækisins sem a.m.k. á tyllidögum og í auglýsingum er sagt „okkar allra“ sem með góðu eða illu greiða nefskatt í formi útvarpsgjalds til að standa undir rekstrinum.

Fyrir landsfundarfulltrúa hefði ekki verið ónýtt að hafa skýrsluna við höndina þegar þeir móta stefnu Sjálfstæðisflokksins og taka afstöðu til ríkisrekstrar á fjölmiðlamarkaði í samkeppni við misburðuga einkaaðila.  

Pólitískur kraftur

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur misjafnlega merkileg atriði úr drögum málefnanefnda sem líklegt og vonandi verður deilt um.  

Það er magnað að verða vitni að því hvernig samkeppni hugmynda og hörð skoðanaskipti á landsfundi geta leyst úr læðingi pólitískan kraft sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa aldrei skilið né staðist. Styrkur Sjálfstæðisflokksins felst í dagskrárvaldi almennra flokksmanna.

Share