Fundir sem skipta máli og þeir sem engu skipta

Fundir stjórnmálaflokka eru misjafnir. Flestir skipta litlu og þjóna ekki öðrum tilgangi en að gefa samherjum tækifæri til að koma saman, sitja undir ræðum, jánka, kinka kolli og fá sér kaffi. Sumir fundir gára hið pólitíska vatn í nokkra daga en svo færist lognmollan aftur yfir og allt verður eins og áður. En svo eru haldnir einstaka fundir sem marka tímamót – setja spor í söguna sem fennir ekki yfir og verða einskonar hreyfiafl breytinga og hugmyndafræðilegrar sóknar.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi var ekki aðeins líflegur heldur bendir flest til að þar hafi orðið þáttaskil í starfi flokksins. Ungt fólk lét til sín taka með skipulegum hætti og hafði veruleg áhrif á stefnuna sem var mótuð og samþykkt. Framganga þess var til fyrirmyndar. Ungliðar mættu til leiks með mótaðar hugmyndir og tillögur, fylgdu þeim eftir af festu og náðu árangri.

Mér er til efst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nokkru sinni átt jafn fjölmenna sveit ungs fólks á landsfundi sem hefur hæfileika og vilja til að fylgja hugsjónum sínum eftir. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Elín Káradóttir, Pawel Bartoszek, Laufey Rún Ketilsdóttir og Albert Guðmundsson eru hluti af öflugu liði ungs fólks sem er tilbúið til að taka þátt í pólitísku starfi til að hafa áhrif á samfélagið. Undir gunnfána frelsis vill ungt fólk varða veginn, gefa einstaklingnum aukið svigrúm, hverfa frá forsjárhyggju og koma böndum á ríkisvaldið. Fordómum er hent út í hafsauga, staðalímyndum hverskonar er hafnað, forréttindum vísað á bug en þess krafist að hver og einn fái að vera hann sjálfur – að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti jafnra tækifæra í lífinu.

En það voru ekki bara þeir yngri sem létu að sér kveða á landsfundinum. Samtök eldri sjálfstæðismanna [SES], undir forystu Halldórs Blöndals tóku virkan þátt í stefnumótun á fundinum eins og m.a. má sjá glöggt í ályktun um velferðarmál. Eldri sjálfstæðismenn mættu vel nestaðir á fundinn samkvæmt venju enda SES öflug og virk í pólitísku starfi. Ég hef áður haldið því fram að vikulegir fundir SES séu með þeim skemmtilegustu enda er þar rædd pólitík án tæpitungu.

Verkefnalisti

Með einföldum hætti er hægt að segja að með ályktunum hafi landsfundarfulltrúar útbúið verkefnalista fyrir þingmenn, ráðherra og sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað eru ekki allir sammála öllu sem samþykkt var. Kjörnir fulltrúar flokksins, sem ekki hreyfðu andmælum eða vöktu sérstaka athygli á að þeir væru andvígir því sem samþykkt var, hljóta að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja framgang þeirra verkefna sem landsfundur telur nauðsynleg.

Sum verkefnin eru einföld og auðvelt að leysa. Sjálfstæð ráðuneyti dómsmála og heilbrigðismála eru dæmi. Enn einfaldara er að framfylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins um lækkun kosningaaldurs í 16 ár. Þar þarf í raun ekki annað en breyta einum staf í kosningalögum. Með breytingunni vilja sjálfstæðismenn að kosningaaldur miðist við upphaf sjálfstæðrar skattlagningar eða eins og segir í ályktun:

„Skattgreiðendur í lýðræðisríki hafa þann rétt að kjósa hvernig skattfé skuli ráðstafað og er því ótækt að skattgreiðendum sé mismunað á grundvelli aldurs.“

Önnur verkefni eru flóknari og krefjast nokkurs undirbúnings. Í ályktun fjárlaganefndar sem landsfundur samþykkti segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, rekstur flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og annan verslunarrekstur Isavia sem og RÚV. Ráðast þarf í úttekt á hagkvæmni húsnæðis ríkisstofnana og ríkið selji í framhaldinu allar þær eignir sem ekki eru nauðsynlegar.“

Fátt ætti að koma í veg fyrir að þessari stefnu sé hrint í framkvæmd þegar á næsta ári.

Gegn forræðishyggju og afturhaldi

Í menntamálum samþykkti landsfundur meðal annars:

„Tryggja ber að óskert fjárframlag fylgi hverjum nemenda á öllum skólastigum t.d. í formi ávísanakerfis. Með því er stuðlað að fjölbreyttara rekstrarformi skóla og tekið tillit til ólíkra þarfa nemenda til þess að vekja áhuga og þroska hæfileika þeirra sem best.“

Þessi stefnumörkun er í anda þess sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi barist fyrir en til að tryggja framkvæmd hennar verður menntamálaráðherra að hafa sveitarstjórnarmenn heilshugar í liði sínu.

Lækkun áfengiskaupaaldurs í 18 ár mun örugglega valda deilum og skiptir engu þótt bent sé á hversu öfugsnúið það sé að banna lögráða og fjárráða einstaklingum að kaupa löglegar neysluvörur. Á Alþingi eru fulltrúar forræðishyggjunnar en hlutverk þingmanna Sjálfstæðisflokksins er að takast á við þá og forðast ekki átökin.

„Líta þarf á fíkn sem heilbrigðisvanda en ekki löggæsluvanda,“ segir í ályktun um velferðarmál. Með þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn hverfa frá refsistefnu sem einkennt hefur baráttuna við fíkniefnadjöfulinn. Í stað refsingar komi hjálp og aðstoð til að verða virkir borgarar. Fátt er í meira samræmi við grunnstef sjálfstæðisstefnunnar um að aðstoða einstaklinga í vanda til sjálfsbjargar.

Gegn þessari stefnu munu forræðishyggjan og afturhaldið berjast. Þá reyndir á þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Suðupottur hugsjóna

Hér eru aðeins nefnd nokkur þeirra verkefna sem landsfundur fól kjörnum fulltrúum að vinna að. Ónefnd eru önnur mikilvæg s.s. í peningamálum, bygging Landspítala, einkarekstur í heilbrigðisþjónustu, varðstaða um Reykjavíkurflugvöll, fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara og uppbygging séreignastefnunnar.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var suðupottur hugmynda og hugsjóna – það kraumaði undir og oft tekist á. Þannig eiga landsfundir að vera. Ánægjulegast var að skynja hvernig sjálfstæðismenn hafa endurheimt pólitískt sjálfstraust, sem er forsenda pólitískra landvinninga.

Bjarni Benediktsson formaður og Ólöf Nordal varaformaður fara því vel nestuð af landsfundi. Við hlið þeirra stendur ung og glæsileg kona – Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins. Öll fengu þau óvenjulega myndarlega kosningu í embætti og óskorað umboð til að leiða flokkinn til nýrra tíma.

Share