Þegar þessar línur birtast á síðum Morgunblaðsins ætti ég að vera á fundi á Fáskrúðsfirði, gangi allt samkvæmt áætlun. Ég lagði af stað í hringferð um landið síðastliðinn sunnudag ásamt félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Við höfum átt fundi, heimsótt vinnustaði og átt samtöl við hundruð manna. Engu er líkara en að við höfum verið í suðupotti hugmynda og ábendinga.
Laugarbakki í Miðfirði, Blönduós, Skagaströnd, Sauðárkrókur, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Mývatnssveit, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Egilsstaðir, Reyðarfjörður, Neskaupstaður og Eskifjörður, eru að baki. Eftir Fáskrúðsfjörð verður farið til Djúpavogs, og þaðan til Hafnar í Hornafirði og á Kirkjubæjarklaustur. Á morgun, fimmtudag, verður fundur í Vík í Mýrdal og síðan verður stefnan tekin á höfuðborgarsvæðið. Suðurlandsundirlendið, Suðurnes, Vesturland, Snæfellsnes og Vestfirðir verða heimsótt á næstu vikum.
Fyrir þingmenn er fátt mikilvægara en að vera í góðum tengslum við kjósendur. Þeir þurfa að þekkja aðstæður þeirra, kunna að hlusta og taka gagnrýni. En þingmenn þurfa ekki síður að vera tilbúnir að setja fram hugmyndir sínar – rökræða hugsjónir og stefnu beint og milliliðalaust við þá sem veita þeim umboð.
Lítil og stór
Þau eru mörg málin – lítil og stór – sem fólk hefur viljað ræða við okkur þingmenn og ráðherra. Samgöngumál eru alltaf á dagskrá sem og öflug ljósleiðaratenging um allt land. Á landsbyggðinni sjá menn tækifærin sem felast í öruggum og góðum samgöngum og nettengingum. Störfin – ekki síst hjá ríkisstofnunum – verða ekki háð staðsetningu heldur miklu fremur því hvar hæfileikaríkur starfsmaður vill búa. Raforkuöryggi skiptir sköpum fyrir landsbyggðina og uppbygging dreifikerfisins er forsenda þess að atvinnulíf fái að eflast og þróast. Fyrir landsbyggðina er það lífsspursmál að sjávarútvegur fái að dafna og að starfsumhverfi landbúnaðar verði ekki lakara en gerist í nágrannalöndunum, a.m.k. að regluverkið og kerfið séu ekki að leggja þyngri byrðar á íslenska bændur en starfsbræður þeirra í öðrum löndum.
Eins og reikna mátti með eru skoðanir skiptar um hvernig standa á að uppbyggingu fiskeldis og hversu hratt eigi að fara. Fáir hafna veggjöldum en margir eru mér sammála um að samhliða verði að endurskoða gjaldakerfi á umferðina. Tækifæri í ferðaþjónustunni eru ofarlega í huga flestra á Norðurlandi en um leið er hamrað á nauðsyn þess að byggja upp alþjóðlegan millilandaflugvöll á Akureyri, þó að einnig sé bent á Aðaldalinn og jafnvel Sauðárkrók.
Menntamál og heilbrigðismál eru jafn mikilvæg á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem á annað borð ræddu um bankakerfið eru á því að ríkið eigi að selja Íslandsbanka en vilja að ríkið haldi góðum hlut eftir í Landsbanka. Launahækkun bankastjóra Landsbankans kemur illa við alla.
Það sem ekki er rætt
Mér hefur fundist athyglisvert að enginn sem ég hef rætt við hefur að fyrra bragði minnst á Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands. Ekki einn einasti hefur haft áhuga á að rökræða þriðja orkupakkann. Margir hafa hins vegar áhyggjur af Alþingi – eru á því að þar séum við of innhverf og upptekin af málum sem skipta engu fyrir afkomu almennings. Þessu verður illa mótmælt.
Ónefnd eru hins vegar önnur mál sem eru mörgum hugleikin s.s. varðstaða um Reykjavíkurflugvöll og að innanlandsflug sé raunverulegur valkostur fyrir almenning. Skattamál og séreignastefnan eru mikið rædd.
Hringferð þingmanna Sjálfstæðisflokksins treystir ekki aðeins tengslin við almenning heldur eykur skilning á þeim tækifærum sem eru um allt land ef rétt er staðið að verki. Um leið skynjum við sem skipum þingflokkinn okkur betur áskoranir sem einstök byggðar0lög standa frammi fyrir. Óhætt er að halda því fram að frá fjörlegum fundum og hreinskiptnum samræðum, getum við bætt verkefnalista okkar verulega. Sum verkefnin eru einföld og auðvelt að leysa. Önnur verkefni eru flóknari og krefjast undirbúnings og nýrrar hugsunar.
„Blæðandi hjarta“
Á hringferðinni rifjaðist upp að fyrir nær þremur árum skrifaði ég um einn merkasta stjórnmálamann Bandaríkjanna síðustu áratuga liðinna aldar. Jack Kemp, fulltrúadeildarþingmaður repúblikana og húsnæðismálaráðherra, (1935-2009) var hægrimaður – íhaldsmaðurinn með hið meyra, blæðandi hjarta. Hann var maður drenglyndis í stjórnmálum, taldi sig eiga pólitíska andstæðinga en enga pólitíska óvini. Í hverjum andstæðingi sá hann mögulega bandamenn og var óhræddur við að hrósa demókrötum og eiga við þá samvinnu til að vinna að hagsmunum almennings.
Kemp var ástríðufullur stjórnmálamaður sem óf saman hugsjónir hægri mannsins við mannúð og samkennd. Í áðurnefndri grein benti ég á að við sem skipum okkur í sveit íslenskra hægrimanna getum sótt ýmislegt úr Kemp-smiðjunni. „Ekki síst hvernig hægt er að standa fast á hugsjónum, falla ekki í freistni lýðskrumsins og átta sig á að þeir sem ekki eru sammála eru mótherjar en ekki óvinir. Við gætum jafnvel fundið í smiðjunni ástríðuna og enn eina staðfestingu þess hvernig samkennd og mannúð eru órjúfanlegur hluti af frelsi einstaklingsins.“
Jack Kemp var óþreytandi að minna flokkssystkini sín á skyldur þeirra að vinna að almannaheill. Hver og einn hefur skyldur gagnvart náunganum. Fundirnir og samtölin sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum átt síðustu daga, hafa styrkt mig í þeirri trú að við hefðum gott af að sækja í smiðju merkilegs stjórnmálamanns.
You must be logged in to post a comment.