Suðupottur hugmynda og ábendinga

Suðupottur hugmynda og ábendinga

Þegar þess­ar lín­ur birt­ast á síðum Morg­un­blaðsins ætti ég að vera á fundi á Fá­skrúðsfirði, gangi allt sam­kvæmt áætl­un. Ég lagði af stað í hring­ferð um landið síðastliðinn sunnu­dag ásamt fé­lög­um mín­um í þing­flokki Sjálf­stæðis­flokks­ins. Við höf­um átt fundi, heim­sótt vinnustaði og átt sam­töl við hundruð manna. Engu er lík­ara en að við höf­um verið í suðupotti hug­mynda og ábend­inga.

Laug­ar­bakki í Miðfirði, Blönduós, Skaga­strönd, Sauðár­krók­ur, Ólafs­fjörður, Dal­vík, Ak­ur­eyri, Mý­vatns­sveit, Húsa­vík, Þórs­höfn, Vopna­fjörður, Seyðis­fjörður, Eg­ilsstaðir, Reyðarfjörður, Nes­kaupstaður og Eskifjörður, eru að baki. Eft­ir Fá­skrúðsfjörð verður farið til Djúpa­vogs, og þaðan til Hafn­ar í Hornafirði og á Kirkju­bæj­arklaust­ur. Á morg­un, fimmtu­dag, verður fund­ur í Vík í Mýr­dal og síðan verður stefn­an tek­in á höfuðborg­ar­svæðið. Suður­landsund­ir­lendið, Suður­nes, Vest­ur­land, Snæ­fells­nes og Vest­f­irðir verða heim­sótt á næstu vik­um.

Fyr­ir þing­menn er fátt mik­il­væg­ara en að vera í góðum tengsl­um við kjós­end­ur. Þeir þurfa að þekkja aðstæður þeirra, kunna að hlusta og taka gagn­rýni. En þing­menn þurfa ekki síður að vera til­bún­ir að setja fram hug­mynd­ir sín­ar – rök­ræða hug­sjón­ir og stefnu beint og milliliðalaust við þá sem veita þeim umboð.

Lít­il og stór

 

Þau eru mörg mál­in – lít­il og stór – sem fólk hef­ur viljað ræða við okk­ur þing­menn og ráðherra. Sam­göngu­mál eru alltaf á dag­skrá sem og öfl­ug ljós­leiðara­teng­ing um allt land. Á lands­byggðinni sjá menn tæki­fær­in sem fel­ast í ör­ugg­um og góðum sam­göng­um og netteng­ing­um. Störf­in – ekki síst hjá rík­is­stofn­un­um – verða ekki háð staðsetn­ingu held­ur miklu frem­ur því hvar hæfi­leika­rík­ur starfsmaður vill búa. Raf­orku­ör­yggi skipt­ir sköp­um fyr­ir lands­byggðina og upp­bygg­ing dreifi­kerf­is­ins er for­senda þess að at­vinnu­líf fái að efl­ast og þró­ast. Fyr­ir lands­byggðina er það lífs­spurs­mál að sjáv­ar­út­veg­ur fái að dafna og að starfs­um­hverfi land­búnaðar verði ekki lak­ara en ger­ist í ná­granna­lönd­un­um, a.m.k. að reglu­verkið og kerfið séu ekki að leggja þyngri byrðar á ís­lenska bænd­ur en starfs­bræður þeirra í öðrum lönd­um.

Eins og reikna mátti með eru skoðanir skipt­ar um hvernig standa á að upp­bygg­ingu fisk­eld­is og hversu hratt eigi að fara. Fáir hafna veg­gjöld­um en marg­ir eru mér sam­mála um að sam­hliða verði að end­ur­skoða gjalda­kerfi á um­ferðina. Tæki­færi í ferðaþjón­ust­unni eru of­ar­lega í huga flestra á Norður­landi en um leið er hamrað á nauðsyn þess að byggja upp alþjóðleg­an milli­landa­flug­völl á Ak­ur­eyri, þó að einnig sé bent á Aðaldal­inn og jafn­vel Sauðár­krók.

Mennta­mál og heil­brigðismál eru jafn mik­il­væg á lands­byggðinni og á höfuðborg­ar­svæðinu. Þeir sem á annað borð ræddu um banka­kerfið eru á því að ríkið eigi að selja Íslands­banka en vilja að ríkið haldi góðum hlut eft­ir í Lands­banka. Launa­hækk­un banka­stjóra Lands­bank­ans kem­ur illa við alla.

Það sem ekki er rætt

Mér hef­ur fund­ist at­hygl­is­vert að eng­inn sem ég hef rætt við hef­ur að fyrra bragði minnst á Evr­ópu­sam­bandið og hugs­an­lega aðild Íslands. Ekki einn ein­asti hef­ur haft áhuga á að rök­ræða þriðja orkupakk­ann. Marg­ir hafa hins veg­ar áhyggj­ur af Alþingi – eru á því að þar séum við of inn­hverf og upp­tek­in af mál­um sem skipta engu fyr­ir af­komu al­menn­ings. Þessu verður illa mót­mælt.

Ónefnd eru hins veg­ar önn­ur mál sem eru mörg­um hug­leik­in s.s. varðstaða um Reykja­vík­ur­flug­völl og að inn­an­lands­flug sé raun­veru­leg­ur val­kost­ur fyr­ir al­menn­ing. Skatta­mál og sér­eigna­stefn­an eru mikið rædd.

Hring­ferð þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins treyst­ir ekki aðeins tengsl­in við al­menn­ing held­ur eyk­ur skiln­ing á þeim tæki­fær­um sem eru um allt land ef rétt er staðið að verki. Um leið skynj­um við sem skip­um þing­flokk­inn okk­ur bet­ur áskoranir sem ein­stök byggðar0­lög standa frammi fyr­ir. Óhætt er að halda því fram að frá fjör­leg­um fund­um og hrein­skiptn­um sam­ræðum, get­um við bætt verk­efna­lista okk­ar veru­lega. Sum verk­efn­in eru ein­föld og auðvelt að leysa. Önnur verk­efni eru flókn­ari og krefjast und­ir­bún­ings og nýrr­ar hugs­un­ar.

„Blæðandi hjarta“

Á hring­ferðinni rifjaðist upp að fyr­ir nær þrem­ur árum skrifaði ég um einn merk­asta stjórn­mála­mann Banda­ríkj­anna síðustu ára­tuga liðinna ald­ar. Jack Kemp, full­trúa­deild­arþingmaður re­públi­kana og hús­næðismálaráðherra, (1935-2009) var hægrimaður – íhaldsmaður­inn með hið meyra, blæðandi hjarta. Hann var maður dreng­lynd­is í stjórn­mál­um, taldi sig eiga póli­tíska and­stæðinga en enga póli­tíska óvini. Í hverj­um and­stæðingi sá hann mögu­lega banda­menn og var óhrædd­ur við að hrósa demó­kröt­um og eiga við þá sam­vinnu til að vinna að hags­mun­um al­menn­ings.

Kemp var ástríðufull­ur stjórn­mála­maður sem óf sam­an hug­sjón­ir hægri manns­ins við mannúð og sam­kennd. Í áður­nefndri grein benti ég á að við sem skip­um okk­ur í sveit ís­lenskra hægrimanna get­um sótt ým­is­legt úr Kemp-smiðjunni. „Ekki síst hvernig hægt er að standa fast á hug­sjón­um, falla ekki í freistni lýðskrums­ins og átta sig á að þeir sem ekki eru sam­mála eru mót­herj­ar en ekki óvin­ir. Við gæt­um jafn­vel fundið í smiðjunni ástríðuna og enn eina staðfest­ingu þess hvernig sam­kennd og mannúð eru órjúf­an­leg­ur hluti af frelsi ein­stak­lings­ins.“

Jack Kemp var óþreyt­andi að minna flokks­systkini sín á skyld­ur þeirra að vinna að al­manna­heill. Hver og einn hef­ur skyld­ur gagn­vart ná­ung­an­um. Fund­irn­ir og sam­töl­in sem við þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins höf­um átt síðustu daga, hafa styrkt mig í þeirri trú að við hefðum gott af að sækja í smiðju merki­legs stjórn­mála­manns.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :