Óþol hinna umburðarlyndu

Ef til vill voru viðbrögð vinstri manna við skýrslu dr. Hann­es­ar Hólm­steins Giss­ur­ar­son­ar um er­lenda áhrifaþætti banka­hruns­ins 2008, fyrirsjáan­leg. Af ein­hverj­um ástæðum kom­ast marg­ir vinst­ris­inn­ar alltaf úr jafn­vægi þegar nafn Hann­es­ar Hólm­steins ber á góma. Líkt og oft áður í sög­unni skipta skila­boðin (efni skýrsl­unn­ar) litlu en sendi­boðinn öllu og á þeim grunni er lagt til at­lögu.

Í pistli á mbl.is bend­ir Sig­urður Már Jóns­son blaðamaður á að skýrsla Hann­es­ar Hólm­steins setji ís­lenska banka­hrunið í alþjóðlegt sam­hengi og varpi um leið ljósi á sam­skipti við er­lend stjórn­völd í kring­um fall viðskipta­bank­anna. Við Íslend­ing­ar vor­um ein­angraðir og nágrannaþjóðir „snéru við okk­ur bak­inu og fé­nýttu sér svo aðstæðurn­ar“. Sig­urður Már seg­ir það „furðulegt að fylgj­ast með því hve marg­ir eru til­bún­ir að gagn­rýna skýrsl­una og játa um leið að hafa ekki lesið hana!“.

Van­líðan og viðkvæmni

Af ein­hverj­um ástæðum er það viðkvæmt að reynt sé að greina er­lenda áhrifaþætti banka­hruns­ins. Engu er lík­ara en að þing­menn Samfylking­ar­inn­ar fari á taug­um þegar dregn­ar eru fram staðreynd­ir um hvernig fram­ganga annarra ríkja gagn­vart Íslandi á erfiðum tím­um, hafi gert efna­hags­legu áföll­in erfiðari og meiri. Þess vegna er forðast að ræða efni skýrslu Hann­es­ar Hólm­steins (og kannski er hún ekki einu sinni les­in) en þess í stað er ráðist á höf­und­inn og hann gerður tor­tryggi­leg­ur vegna stjórn­mála­skoðana sinna og þátt­töku í þjóðmálaumræðu í ára­tugi.

Það er eft­ir­tekt­ar­vert hversu mik­illi van­líðan skýrsl­an veld­ur mörg­um. Sig­urður Már seg­ir að í henni sé gengið „gegn ákveðnum dog­mat­isma sem hef­ur verið sterk­ur í umræðunni hér heima, einkum meðal vinstri manna, ein­staka há­skóla­mönn­um og ákveðnum starfs­mönn­um Ríkisút­varps­ins“. Get­ur verið að þetta sé ástæðan fyr­ir ang­ist þeirra sem vilja kasta rýrð á efni skýrsl­unn­ar með því að ráðast á per­sónu höfund­ar­ins?

Það er merki­legt hve þeim sem mest kenna sig við umb­urðarlyndi og víðsýni, er illa við að til séu fræðimenn og há­skóla­kenn­ar­ar sem aðhyllast lífs­skoðanir sem byggja á ein­stak­lings­frelsi og frjáls­um markaði. Óþol hinna umb­urðarlyndu gagn­vart slík­um skoðunum fer vaxandi. Umb­urðarlyndið nær aðeins til þeirra sem eru með „réttu“ skoðan­irn­ar og „rétta“ póli­tíska bak­grunn­inn. Þess vegna er það eðli­legt að pró­fess­or­ar og há­skóla­kenn­ar­ar, sem sum­ir hafa tekið virk­an þátt í þjóðmá­laum­ræðunni og jafn­vel setið á Alþingi fyr­ir „rétta“ flokk­inn, skrifi bæk­ur og skýrsl­ur og séu fengn­ir í drottn­ing­ar­viðtöl í rík­is­rekn­um fjöl­miðli.

Gegn sam­keppni hug­mynda

Sam­keppni hug­mynda er eit­ur í bein­um þeirra sem hæst tala um eigið umb­urðarlyndi og víðsýni. Í stað rök­ræðunn­ar er gripið til þess ráðs að grafa und­an þeim sem eru and­stæðrar skoðunar – gera viðkom­andi tor­tryggi­leg­an sem tals­mann öfga­fullra viðhorfa. Reynt er að kom­ast und­an því að glíma við and­stæðar skoðanir og viðhorf – hlaupið und­an rök­ræðunni. Hægt og bít­andi verður póli­tísk umræða lítið annað en inni­halds­laust hjal, fras­ar og upp­hróp­an­ir.

Með skáld­leg­um til­b­urðum – sem víðsýn­in ein leyf­ir – er varað við því úr ræðustól Alþing­is að „öfga­menn með skrýtn­ar jaðarskoðanir“ ráði för þegar rætt er um að draga úr um­svif­um Rík­is­út­varps­ins á aug­lýs­inga­markaði. Í hug­um hinna umb­urðarlyndu er Rík­is­út­varpið heil­ög stofn­un og aðeins öfga­menn vilja jafna stöðu sjálf­stæðra fjöl­miðla í sam­keppni við ríkið á fjöl­miðlamarkaði. Og þeir verstu leyfa sér að ef­ast um rétt­mæti þess að ríkið sé yfir höfuð að reka fjöl­miðil með þeim hætti sem gert er. Heit­asti draum­ur víðsýnna stjórn­mála­manna er að efla Rík­is­út­varpið enn frek­ar og gera sjálf­stæða fjöl­miðla að þur­fa­ling­um rík­is­sjóðs með op­in­ber­um styrkj­um og milli­færslu­sjóðum. Þver­sögn­in sem í því felst trufl­ar ekki þá sem gera þá kröfu um að fá viður­kenn­ingu fyr­ir frjáls­lyndi.

Horn­steinn frjálsra sam­fé­laga

Sam­keppni hug­mynda og skoðana er einn horn­steina frjálsra sam­fé­laga og for­senda fram­fara. Þess­ari staðhæf­ingu hafna hinir umburðarlyndu í óþoli sínu gagn­vart þeim sem eru á önd­verðum meiði og setja fram aðrar skoðanir en þær sem eru þókn­an­leg­ar. Ró­semi, skiln­ing­ur og þol­in­mæði gagn­vart „röng­um hug­mynd­um“ er ekki leyfð. Gagn­rýni sem bygg­ist á borg­ara­leg­um gild­um skal kæfð í fæðingu. Í fyr­ir­mynda­ríki umb­urðarlynd­is þurfa skoðanir sér­staka lög­gild­ingu og þeim tryggður far­veg­ur í há­skól­um og á öld­um ljósvaka rík­is­ins.

Ný-frjáls­lyndi vinstri manna er rétt­læt­ing þess að seil­ast dýpra í vasa launa­fólks og kalla það sam­fé­lags­lega ábyrgð að þenja út ríkið og ríkisrekst­ur­inn. Aðeins kreddufast­ir, þröng­sýn­ir og öfga­full­ir stjórn­mála­menn tala fyr­ir lægri skött­um, at­hafna­frelsi fram­taks­manns­ins og einfald­ara reglu­verki.

Hægt og bít­andi missa sum orð merk­ingu eða snú­ast jafn­vel upp í and­hverfu sína. Frjáls­lyndi, víðsýni og umb­urðarlyndi hafa fengið aðra og gjör­breytta merk­ingu frá því þegar ég var að al­ast upp.

Share