Ríkisútvarpið og sjálfstæðir framleiðendur

Árið 2016 var undirritaður þjónustusamningur milli menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins og þar var meðal annars ákvæði um kaup ríkismiðilsins á dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum. Samkvæmt samningnum átti Ríkisútvarpið að verja að lágmarki 8% af heildartekjum sínum til kaupa (eða gerast meðframleiðandi) sjónvarpsþætti, heimildaþætti og kvikmyndir af sjálfstæðum framleiðendum. Á síðasta ári átti hlutfallið að vera að lágmarki 9%, 10% á þessu ári og 11% á komandi ári.

Óli Björn Kárason hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til menntamálaráðherra um hvernig Ríkisútvarpið hafi uppfyllt þetta ákvæði:

1. Með hvaða hætti hefur Ríkisútvarpið uppfyllt ákvæði gr. 2.1.1. þjónustusamnings ráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016–2019, dags. 5. apríl 2016, um kaup af sjálfstæðum framleiðendum? Óskað er eftir sundurliðun fjárhæða eftir:
a.      árum,
b.      dagskrárefni, heiti þess og upplýsingum um framleiðendur og dagskrárgerðarmenn.
2. Hafa kaup Ríkisútvarpsins á dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum í einhverju tilfellum verið fjármögnuð með því að láta í té aðstöðu eða önnur efnisleg verðmæti? Ef svo er, er óskað eftir upplýsingum um bókfærð verðmæti slíkra samninga eftir:
a.      árum,
b.      dagskrárefni, heiti þess og upplýsingum um framleiðendur og dagskrárgerðarmenn.
3. Hefur Ríkisútvarpið ohf. gert samninga við sjálfstæða framleiðendur um að fá hlutdeild í væntanlegum hagnaði vegna sölu til þriðja aðila á sjónvarpsþáttum, kvikmyndum og heimildarmyndum? Ef svo er, hverjar hafa tekjur Ríkisútvarpsins ohf. verið af slíkum samningum og hvernig hefur þeim fjármunum verið ráðstafað? Jafnframt er óskað eftir yfirliti yfir hvaða samningar af þessu tagi hafa verið gerðir.
4. Með hvaða hætti hefur ráðuneytið eftirlit með framkvæmd þjónustusamningsins?

Share